Gengu erinda hersins þegar þeir grönduðu MH17

Farþegaþota Malaysia Airlines MH17 rifnaði í sundur yfir lofthelgi Úkraínu …
Farþegaþota Malaysia Airlines MH17 rifnaði í sundur yfir lofthelgi Úkraínu er hún varð fyrir flugskeyti. AFP

Saksóknarar í Hollandi segja að mennirnir fjórir, sem sakaðir eru um að hafa grandað farþegaflugvél í lofthelgi Úkraínu árið 2014, hafi verið að ganga eigin hernaðarlegu erinda.

Með öðrum orðum eru mennirnir sakaðir um að hafa verið að ganga erinda rússneska hersins þegar þeir skutu loftskeytum í átt að vélinni, með þeim afleiðingum að allir 298 um borð létust. Líklegt má þykja að mennirnir hafi ætlað sér að granda úkraínskri herflugvél.

Vélin var á leið frá Schipol-flugvelli í Amsterdam, Hollandi, og til Kúala Lúmpúr í Malasíu þegar hún fórst. Aðalmeðferð málsins sem nú stendur yfir fyrir hollenskum dómstól bætir líklega gráu ofan á svart í samskiptum Rússlands og Vesturlanda, sem báru nýlega fram ásakanir um að Rússar væru að leggja á ráðin um innrás inn í Úkraínu.

Mennirnir, sem ekki hafa enn mætt fyrir dómara í Hollandi, eru frá Rússlandi og heita Ígor Girkin, Sergei Dúbinskí og Oleg Púlatov að undanskildum Leoníd Karsjenkó, sem er frá Úkraínu. Girkin, Dúbinskí og Púlatov eru fyrrum útsendarar rússnesku leyniþjónustunnar en Karsjenkó er þekktur úkraínskur aðskilnaðarsinni.

Skýrslutökur sakborninga og vitna hafa tekið um þrjá daga en dómsuppkvaðningar er ekki að vænta fyrr en seint á næsta ári í fyrsta lagi, eins og fram kemur í frétt AFP.

Þyngsti mögulegi dómur yfir mönnunum er lífstíðarfangelsisdómur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka