Eftirlifendur fellibylsins sem reið yfir Filippseyjar á fimmtudaginn hafa gripið til þess ráðs að skrifa ástvinum sínum bréf til þess að láta þá vita að þeir hafi lifað hamfarirnar af en hvorki síma- né netsamband er á svæðinu.
Myndir af bréfunum voru birtar á Facebook-síðu Arlene Bag-ao, ríkisstjóra Dinagat-eyjanna í dag en hún hefur komist í netsamband á ferð sinni til nágrannaeyjunnar Mindanao, þar sem hún hyggst leita aðstoðar fyrir kjósendur sína.
„Við erum ánægð að vera á lífi,“ skrifaði Aimee Antonio-Jimeno í bréfi sem dagsett er 19. desember og stílað á systur hennar. „Það eru ekki þök á húsunum en við höfum ennþá von.“
Minnst 14 létust á Dinagat-eyjunum þegar fellibylurinn reið yfir á fimmtudaginn var en um er að ræða stærsta og skæðasta fellibyl sem riðið hefur yfir Filippseyjar fram að þessu. Þá olli fellibylurinn miklu tjóni á mannvirkjum á svæðinu.
Fjöldi þeirra sem látið hafa lífið vegna mikilla óveðra í landinu á árinu er nú 375.
Íbúar Dinagat-eyjanna eru um 128 þúsund talsins og gat fjöldi þeirra leitað skjóls undan fellibylnum í hjálparmiðstöðvum. Fjöldi þeirra hafa þó misst heimili sín. Þá er einnig skortur á drykkjarvatni og mat á svæðinu, að sögn embættismanna.
Eftir að hafa fengið beiðni um aukna upplýsingagjöf um ástandið hvatti Bag-ao fólk til að skrifa bréf til ástvina sinna sem búa utan Dinagat, til að láta þá vita að það væri öruggt.
Hún birti svo bréfin á Facebook undir yfirskriftinni: „Bréf frá Dinagat-eyjum“.
„Gerðu það, ekki hafa áhyggjur af mér. Ég hef það fínt,“ skrifaði ein.
„Húsið sem þið vilduð að ég flytti úr er eitt af þeim húsum sem stendur enn svo stundum er gott að ég sé of löt til þess að flytja,“ skrifaði önnur. „Minnst tólf hafa þó látið lífið og er hreinlætisaðstaða vandamál,“ bætti hún við.
Raymond Gonzales var stuttorður en hann skrifaði: „Ég er í lagi. Við skulum bara eyða jólunum hér.“
„Við erum öll örugg,“ skrifaði Jane Mayola. „Gleðileg jól og ég vona að ég sjái ykkur öll bráðlega. Við elskum ykkur!,“ bætti hún við.
Í samtali við ABS-CBN sagði Jeff Crisostomo, upplýsingafulltrúi héraðsins, fellibylinn hafa „jafnað Dinagat-eyjar við jörðu“.
„Ég sá þung borð fjúka af annarri hæð,“ sagði hann. „Þegar við komumst út sá ég alla eyðilegginguna - öll húsin voru ónýt.“