Slepptu tíu skjaldbökum í bráðri útrýmingarhættu

Hver skjaldbaka verður með tæki á sér sem gerir líffræðingum …
Hver skjaldbaka verður með tæki á sér sem gerir líffræðingum kleift að fylgjast með ferðum þeirra. AFP

Náttúruverndarsinnar í Bangladess hafa sleppt tíu skjaldbökum af tegund sem er í bráðri útrýmingarhættu inn í afskekktan skóg í tilraun til þess að forða skjaldbökutegundinni frá útrýmingu.

Skjaldbökutegundin hafði eitt sinn verið víða um skóga landsins en svæðið hefur verið svipt gróðri fyrir nýja vegi og uppbyggingu ásamt því að skjaldbökutegundin er vinsæl í matargerð ættbálka á svæðinu.

AFP

Talin vera ein elsta skjaldbökuætt í heimi

Skjaldbökurnar tíu sem sleppt var voru afkvæmi skjaldbaka sem hafði verið bjargað frá slátrun.

Formaður velferðarsamtaka skjaldbaka á svæðinu, Rick Hudson, sagði í dag að það að leyfa skjaldbökunum að komast aftur út í náttúruna væri mjög stórt skref í að koma skjaldbökunum aftur til sinna upprunalegu heimaslóða.

Hver skjaldbaka verður með tæki á sér sem gerir líffræðingum kleift að fylgjast með ferðum þeirra. Skjaldbökutegundin sem um ræðir er sú stærsta allra skjaldbökutegunda í Asíu og getur vegið allt að 35 kíló. Talið er að hún sé af einni elstu skjaldbökuætt í heimi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert