„Við verðum að ljúka þessum faraldri árið 2022“

Ghebreyesus sagði betra að fresta núna og fagna síðar.
Ghebreyesus sagði betra að fresta núna og fagna síðar. AFP

Framkvæmdastjóri Alþjóðaheilbrigðstofnunarinnar (WHO) sagði í dag mikilvægt að heimsbyggðin tæki sig saman og tæki ákvarðanir sem væru nauðsynlegar til að kórónuveirufaraldrinum lyki á næsta ári. AFP-fréttastofan greinir frá.

Árinu færi nú senn að ljúka og hátíðarnar nálguðust og Tedros Adhanom Ghebreyesus, framkvæmdastjóri WHO, sagði að betra væri að fresta viðburðum núna og fagna síðar í stað þess að fagna nú og syrgja síðar.

Allir vildu eyða tíma með fjölskyldu og vinum. Allir vildu fá hlutina í eðlilegt horf. En til þess að það væri hægt yrðum við að byrja á að vernda okkur sjálf í ljósi þess að smitum færi hratt fjölgandi og bylgjan nú væri keyrð áfram að Ómíkron-afbrigðinu.

Tedros sagðist halda að hægt væri að stöðva faraldurinn, en þá yrðum við að nota öll tæki og tól sem byðust; allt frá bólusetningum til andlitsgríma og muna að halda fjarlægð.

„Við verðum að einblína á að ljúka þessum faraldri. Við verðum að ljúka þessum faraldri árið 2022.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert