Framkvæmdastjóri Alþjóðaheilbrigðstofnunarinnar (WHO) sagði í dag mikilvægt að heimsbyggðin tæki sig saman og tæki ákvarðanir sem væru nauðsynlegar til að kórónuveirufaraldrinum lyki á næsta ári. AFP-fréttastofan greinir frá.
Árinu færi nú senn að ljúka og hátíðarnar nálguðust og Tedros Adhanom Ghebreyesus, framkvæmdastjóri WHO, sagði að betra væri að fresta viðburðum núna og fagna síðar í stað þess að fagna nú og syrgja síðar.
Allir vildu eyða tíma með fjölskyldu og vinum. Allir vildu fá hlutina í eðlilegt horf. En til þess að það væri hægt yrðum við að byrja á að vernda okkur sjálf í ljósi þess að smitum færi hratt fjölgandi og bylgjan nú væri keyrð áfram að Ómíkron-afbrigðinu.
Tedros sagðist halda að hægt væri að stöðva faraldurinn, en þá yrðum við að nota öll tæki og tól sem byðust; allt frá bólusetningum til andlitsgríma og muna að halda fjarlægð.
„Við verðum að einblína á að ljúka þessum faraldri. Við verðum að ljúka þessum faraldri árið 2022.“