Ómíkron-afbrigðið er nú orðið ráðandi í Danmörku, en metfjöldi smita greindist þar í landi síðatliðinn sólahring eða 13.558 smit. Heilbrigðisráðherra landsins, Magnus Heunicke, greinir frá þessu á Twitter-síðu sinni. Mánuður er síðan afbrigðið greindist fyrst í Danmörku.
Að minnsta kosti 500 af þeim sem greindust síðastliðinn sólarhring voru að greinast með covid-19 í annað sinn. AFP-fréttaveitan greinir frá.
Hertar sóttvarnaraðgerðir tóku gildi í Danmörku á sunnudag en þá var kvikmyndahúsum, leikhúsum og tónleikastöðum lokað og opnunartími veitingastaða styttur. Aðgerðirnar gilda að minnsta kosti í fjórar vikur.
Er þetta mikill viðsnúningur á aðeins nokkrum vikum, en um miðjan september var öllum takmörkunum aflétt í Danmörku. Þegar smitum fór að fjölga aftur var hins vegar ákveðið að taka um bólusetningarskírteini í lok nóvember, sem þurfti að framvísa á ýmsum stöðum. Hertar aðgerðir voru svo kynntar í síðustu viku, en í ljósi þess hve Ómíkron-afbrigðið breiðist hratt út var ákveðið að herða aðgerðir enn frekar.
Þá hafa yfirvöld ákveðið að flýta því að boða fólk í örvunarbólusetningu, ásamt því að hefja bólusetningu barna á aldrinum 5-11 ára. Einnig hefur verið samþykkt leyfi fyrir notkun lyfs gegn covid-19, frá bandaríska lyfjafyrirtækinu Merck, en því er ætlað er að draga úr alvarlegum einkennum.