Eitt smit nóg til að gripið sé til aðgerða

Allir íbúar Xi'an verða skimaðir fyrir covid-19.
Allir íbúar Xi'an verða skimaðir fyrir covid-19. AFP

Í kínversku borginni Xi’an hafa verið settar á mjög strangar ferðatakmarkanir til að koma í veg fyrir útbreiðslu kórónuveirunnar. Fólk má nú ekki fara um borð í lestar nema fá leyfi frá yfirvöldum og hundruðum flugferða hefur verið aflýst. AFP-fréttastofan greinir frá.

Vetrarólympíuleikarnir verða haldnir í Peking á næsta ári og er undirbúningur nú á lokametrunum. Allar leiðir eru því farnar til að koma í veg fyrir útbreiðslu smita í landinu og það kallar á mjög harðar aðgerðir í borgum þar sem smit koma upp.

52 smit greindust og hertar aðgerðir teknar upp

52 smit greindust í borginni Xi’an síðastliðinn sólahring, en samtals hafa greinst 143 smit þar frá því 9. desember. Ef íbúar ætla að stíga um borð í lest þurfa þeir að sýna fram á leyfi frá yfirvöldum og það fæst eingöngu ef ferðin þykir nauðsynleg. Þessum reglum var komið á eftir að hafist var handa við að skima alla 13 milljón íbúa borgarinnar. 

Þá hefur farþegafjöldi í lestum og strætisvögnum innan borgarinnar verið takmarkaður og skólum lokað.

90 borgum og íbúðasvæðum lokað

Samkvæmt upplýsingum frá kínverskum yfirvöldum hafa um 90 borgir eða íbúðasvæði verið einangruð vegna smita, en ekki kemur fram hve margir íbúar eru á þessum svæðum.

Smitum hefur ekki verið að fjölga jafn hratt í Kína og víða annars staðar, eftir að fór að hægja á smitum þar um mitt síðasta ár. En mjög harðar aðgerðir hafa verið í gangi á landmærum, svæðum lokað og sóttkví beitt. Eitt smit virðist vera nóg til að gripið sé til aðgerða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert