Samkvæmt rannsóknum í bæði Suður-Afríku og Skotlandi virðist nýja afbrigði kórónuveirunnar, Ómíkron, vera vægara en önnur afbrigði veirunnar.
Breska ríkisútvarpið greinir frá.
Fyrstu vísbendingar benda til þess að færri sem smitast af Ómíkron-afbrigðinu þurfi á sjúkrahúsinnlögnum að halda en þeir sem smitast hafa af öðrum afbrigðum veirunnar og er um að ræða um þrjátíu til sjótíu prósenta lækkun á innlögnum.
Þó hafa sérfræðingar enn áhyggjur af afbrigðinu nýja vegna verulegrar smittíðni, sem hefur slegið met í mörgum löndum. Yfir hundrað þúsund smit greindust greindust á einum degi í Bretlandi og er það mesti fjöldi smita sem greinst hefur á einum degi þar í landi.
Í rannsókninni var fylgst með smittíðni og fjölda þeira sem leggjast þurftu á spítala eftir að hafa greinst með veiruna í Skotlandi. Þá segir í rannsókninni að ef Ómíkron-afbrigðið hegðaði sér líkt og Delta-afbrigði kórónuveirunnar gerði, hefði verið búist við hátt í 47 spítalainnlagnir en þessa stundina liggja einungis fimmtán inni vegna veirunnar þar í landi.
Sérfræðingarnir sem framkvæmdu rannsóknina sögðust vera að sjá spítalainnlögnum fækka um tvo þriðju. Skoski sóttvarnarlæknirinn, Dr. Jim McMenamin, lýsti niðurstöðum rannsóknarinnar sem ágætum fregnum
Hann sagði að gögnin sem rannóknin veitti kæmu að góðum notum en að það væri mikilvægt að fara ekki fram úr sér, þar sem Ómíkron-afbrigðið dreifist hratt og að mikill fjöldi tilfella gæti þurrkað út allan ávinning af því að vera vægara.