Yfirvöld í hverju Evrópuríkinu á fætur öðru kynna nú hertar sóttvarnaraðgerðir vegna hraðrar útbreiðslu Ómíkron-afbrigðis kórónuveirunnar um álfuna, en afbrigðið er nú þegar orðið ráðandi í nokkrum ríkjum Evrópu. Í sumum löndum er þó beðið með að herða aðgerðir þangað til eftir jól. BBC greinir frá.
Að sögn Hans Kluge, framkvæmdastjóra Evrópudeildar Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO), mun þessi mikla útbreiðsla veirunnar um álfunna setja heilbrigðiskerfi landanna að þolmörkum. Hann varar við „nýjum stormi“ og segir yfirvöld í hverju landi verða að búa sig undir gríðarlega fjölgun smita á næstunni.
Frakkar telja að daglegur fjöldi smita þar í landi verði komin yfir 100 þúsund innan skamms, en nú eru smitin í kringum 70 þúsund á dag. Heilbrigðisráðherra Frakklands, Oliver Véran segir bylgjuna nú keyrða áfram af Ómíkron-afbrigði veirunnar og að hún verði orðin ráðandi í landinu snemma í janúar.
Frakkar eru nú að hefja bólusetningu barna á aldrinum 5 til 11 ára, en ætla að bíða með að bjóða börnunum á aldrinum 12 til 15 ára örvunarskammt.
Þjóðverjar hafa tilkynnt að frá og með 28. desember verði samkomutakmarkanir hertar og að aðeins tíu megi koma saman. Þá verði skemmtistöðum lokað og fótboltaleikir spilaðir fyrir luktum dyrum, án áhorfenda.
„Kórónuveiran fer ekki í jólafrí“ sagði Olaf Scholz, nýr kanslari Þýskalands í gær. „Við megum ekki og ætlum ekki að loka augunum fyrir þessari nýju bylgju sem er hafin og vofir yfir okkur.“
Portúgalar stefna á svipaðar aðgerðir sem taka þann 26. desember næstkomandi. Aðeins tíu mega þá koma saman utandyra og allir sem geta skulu vinna heima, að minnsta kosti til 9. janúar.
Á mánudag tóku í gildi mjög strangar reglur í Hollandi en öllum verslunum sem ekki selja nauðsynjavörur, börum, líkamsræktarstöðvum, hárgreiðslustofum og öðrum opinberum stöðum verður lokað að minnsta kosti til 14. janúar. Þá má hvert heimili aðeins taka á móti tveimur gestum í einu, en fjórum yfir hátíðarnar.
Í Finnlandi verður veitingastöðum lokað klukkan 18:00 frá og með 28. desember sætafjöldi verður takmarkaður, en þar í landi hafa líka verið slegin met í fjölda smita. Þá verða allir sem koma frá löndum á Schengen-svæðinu að framvísa neikvæðu covid-prófi við komuna til landsins.
Frá og með deginum í dag verður aðeins þjónað til borðs á börum, kaffihúsum og veitingastöðum í Svíþjóð. Þá er fólk beðið um að vinna heima ef það mögulega getur. Lena Hallergren, heilbrigðisráðherra Svíþjóðar, hefur varað við mikilli fjölgun smita af völdum Ómíkron-afbrigðisins og segir álagið á heilbrigðiskerfið vera að aukast.
Í gær greindist mesti fjöldi smita frá upphafi faraldursins á Spáni, eða 49.823 smit. Forsætisráðherra landsins, Pedro Sánchez, mun í dag boða til fundar þar sem rætt verður um hertar aðgerðir á Spáni.