Prófessor við Harvard leyndi tengslum við Kína

Kínverskir háskólanemar halda á kínverska fánanum. Lieber var fundinn sekur …
Kínverskir háskólanemar halda á kínverska fánanum. Lieber var fundinn sekur um að hafa leynt tengslum sínum við kínverska stofnun. AFP

Prófessor við Harvard-háskóla í Bandaríkjunum hefur verið fundinn sekur um að hafa leynt tengslum sínum við kínverska stofnun.

Charles Lieber var fundinn sekur um að hafa veitt bandarískum yfirvöldum falskar upplýsingar, fyrir að hafa skilað efnislega röngum skattframtölum og ekki látið vita af kínverskum bankareikningi.

Ekki hefur verið ákveðið hvenær dómurinn verður kveðinn upp. Hann á yfir höfði sér allt að 26 ára fangelsi. 

Lieber, sem er 62 ára, var ákærður árið 2020. Rannsókn á máli hans var hluti af herferð bandarískra yfirvalda til að koma í veg fyrir njósnir Kínverja í landinu. Sumir gagnrýnendur segja aftur á móti að þessi herferð hamli akademískum rannsóknum, að sögn BBC.

Saksóknarar í Boston sögðu að Lieber hafi vísvitandi falið þátttöku sína í kínverska verkefninu „Þúsund hæfileika-áætlunin“. Ætlunin með henni er að fá til landins erlenda sérfræðinga. Bandarísk yfirvöld höfðu áður lýst yfir áhyggjum sínum af áætluninni.

Lieber, sem er fyrrverandi yfirmaður efnafræðideildar innan Harvard, gekk árið 2011 til liðs við Tækniháskólann í Wuhan í Kína sem vísindamaður.

Hann fékk mánaðarlaun upp á 50 þúsund dali, eða um 6,5 milljónir króna, auk allt að 158 þúsund króna greiðslu, eða um 20 milljóna króna, vegna daglegra útgjalda.

Í dómskjölum kemur fram að hann hafi einnig fengið yfir 1,5 milljónir dala, eða tæpar 200 milljónir króna, fyrir að búa til rannsóknarstofu fyrir háskólann, sækja um einkaleyfi og birta greinar í hans nafni.

Fékk 2 milljarða frá Bandaríkjunum

Starf hans fyrir Kínverjana var ekki ólöglegt en bandarísk yfirvöld segja að hann hafi logið að þeim um þátttöku sína í verkefninu, tengsl sín við háskólann í Wuhan og að hann hafi ekki sagt frá launum sem hann fékk í Kína.

Hann hafði áður fengið 15 milljónir dala, eða tæpa 2 milljarða króna, í styrki frá heilbrigðisstofnun Bandaríkjanna og bandaríska varnarmálaráðuneytinu.

Þeir sem fá slíka styrki þurfa að greina frá öllum hagsmunaárekstrum, þar á meðal fjárhagslegum stuðningi frá erlendum stjórnvöldum eða stofnunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert