Setja á grímuskyldu utandyra á Spáni

Forsætisráðherra Spánar, Pedro Sánchez, eftir blaðamannafund í dag.
Forsætisráðherra Spánar, Pedro Sánchez, eftir blaðamannafund í dag. AFP

Forsætisráðherra Spánar, Pedro Sánchez, tilkynnti á blaðamannafundi í dag að grímuskylda verði nú sett á utandyra á Spáni vegna aukinnar smittíðni þar í landi.

Breska ríkisútvarpið greinir frá.

Grímuskyldan var felld niður fyrir einungis sex mánuðum síðan en smitum er farið að fjölga vegna Ómíkron-afbrigðisins og var slegið met í gær, þegar hátt í 50 þúsund manns greindust með kórónuveiruna. Talið er að um helmingur þeirra sem smitaðir eru á Spáni séu með Ómíkron-afbrigðið.

„Fjölskyldur munu geta haldið upp á hátíðirnar saman“

Á blaðamannafundinum tilkynnti Sánchez einnig um að bólusetningaráætlun Spánar yrði flýtt með aukinni aðstoð frá hernum. Spánn hefur náð góðum árangri í bólusetningum á síðustu mánuðum og forðast hertar samkomutakmarkanir.

Frá blaðamannafundi forsætisráðherra Spánar í dag.
Frá blaðamannafundi forsætisráðherra Spánar í dag. AFP

Eftir að Ómíkron-afbrigðið fór að breiðast út hefur smittíðni á Spáni stóraukist og farið í 695 tilfelli á hverja 100.00 íbúa, sem er hærra en á sama tíma fyrir ári. Síðustu jól lokuðu nokkur svæði á Spáni landamærum sínum sem takmarkaði ferðalög og hamlaði fólki frá því að njóta jólahátíðarinnar með vinum og ættingjum.

Á blaðamannafundinum í dag reyndi forsætisráðherrann að fullvissa almenning um að slíkt myndi ekki endurtaka sig.

„Engar áhyggjur, fjölskyldur munu geta haldið hátíðirnar saman,“ sagði Sánchez.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert