Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, hefur greint frá því að neyðarheimild fyrir notkun á tyrkneska bóluefninu Turkovac hafi verið veitt.
Þriðja stigs klínískar tilraunir með bóluefnið byrjuðu í júní en um 40.000 Tyrkir tóku þátt í tilrauninni.
Enginn gögn hafa borist um virkni bóluefnisins en sérfræðingar heilbrigðisráðuneytis Tyrklands segja bóluefnið virka vel og gæti verið aðeins betra en önnur óvirk bóluefni.
Enginn aðili sem hefur verið bólusettur með Turkovac hefur fengið alvarleg einkenni vegna Covid sýkingar eða hefur þurft að leggjast inn á spítala segir í tilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu þar í landi.
Erdogan hefur heitið því að gefa 15 milljónir skammta af bóluefninu til landa í Afríku og sagðist vera ánægður að geta deilt bóluefninu með mannkyninu.