Verðbólga í hæstu hæðum og matarskortur

Kaupmaður í Sri Lanka raðar upp graskerjum á grænmetismarkaði.
Kaupmaður í Sri Lanka raðar upp graskerjum á grænmetismarkaði. AFP

Verðbólga náði nýjum hæðum í Sri Lanka í nóvember mánuði en samkvæmt upplýsingum frá yfirvöldum þar ytra var verðbólgan 11,1%. Yfirvöld reikna því með að verslanir þurfi áfram að skammta nauðsynleg matvæli fyrir neytendur.

Hagkerfi Sri Lanka treystir mikið á ferðaþjónustuna og kom það því illa undan faraldrinum. Ríkisstjórnin setti því víðtækt innflutningsbann til þess að verja gjaldeyrisforða ríkisins sem olli því að skortur hefur myndast á nauðsynjavörum.

Verslanir hafa því undanfarna mánuði skammtað nauðsynjar á borð við þurrmjólk, sykur og linsubaunir sökum þess að bankar landsins áttu ekki Bandaríkjadali til þess að fjármagna kaup á innfluttum varningi.

Skorturinn á nauðsynjavörum hefur einnig hækkað verð til muna en matvæli hækkuðu um 17% í verði ef marka má tölur frá hagstofu landsins.

Treysta á vinaþjóðir

Verðbólga hefur ekki mælst jafn há á eins árs tímabili síðan að vísitala neysluverðs var tekin í gagnið árið 2015.

AFP fréttastofan hefur eftir Udith Jayasinghe, landbúnaðarráðherra landsins, að yfirvöld muni þurfa að skammta matvæli áfram og leita til aðstoðar hjá nágrannalöndum til þess að tryggja þeim verst settu í landinu nauðsynleg matvæli.

„Við gætum þurft að fá nauðsynjar svo sem hveiti og maís að láni frá vinaþjóðum og huga áfram að matarskömmtum til þess að tryggja að mæður landsins og þeir sem eru verst staddir geti fengið að borða,“ er haft eftir ráðherranum.

Biðja um afgangs „klink“

Staða gjaldeyrisforða landsins hefur versnað verulega frá árinu 2019. Þá átti seðlabankinn gjaldeyrisforða er nam 7,5 milljarði Bandaríkjadala en staða forðans nú er um 1,6 milljarður.

Seðlabankinn hefur þá biðlað til þjóðarinnar að láta erlendan gjaldeyri af hendi, jafnvel þó um sé að ræða klink sem fólk kann að hafa á höndum sér í kjölfar ferðalaga erlendis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert