McDonalds, stærsta skyndibitakeðja heims, sér nú fram á skort á frönskum kartöflum í Japan vegna tafa á flutningi kartaflanna sem umbreytt er í hinar frægu frönsku kartöflur, sem þykja ómissandi með Big Mac. BBC greinir frá.
Til að sporna við algjörum skorti á frönskum á skyndibitastöðum McDonalds í Japan, verður gripið til þess ráðs að selja aðeins litla skammta af frönskum frá og með næstkomandi föstudegi og til 30. desember
„McDonalds í Japan mun takmarka sölu á meðalstórum og stórum skömmtum af frönskum kartöflum, en um er að ræða fyrirbyggjandi aðgerð til að tryggja að allir viðskiptavinir geti notið frönsku kartaflanna okkar,“ segir í yfirlýsingu sem skyndibitakeðjan sendi til BBC.
„Viðskiptavinir okkar munu geta pantað lítinn skammt af frönskum á öllum veitingastöðum okkar. Það hefur enn enginn skortur orðið,“ segir jafnframt í yfirlýsingunni.
Kartöflurnar sem verða af frönskum McDonalds kartöflum í Japan eru yfirleitt fluttar með skipi frá Kanada, en vegna flóða og áhrifa kórónuveirufaraldursins hefur orðið seinkun í skipaflutningum. McDonalds hyggst því grípa til aðgerða og flytja kartöflurnar með flugi til Japan.