Dönsk heilbrigðisyfirvöld segjast hafa fundið ólöglegt minkabú, en slík ræktun var bönnuð á síðasta ári eftir að öllum minkum í landinu var lógað af ótta við stökkbreytt afbrigði kórónuveirunnar.
Alls fundust 230 minkar, ásamt 60 refum, á býli á Norður-Jótlandi. 126 minkar fundust á öðru býli í síðustu viku.
Bæði tilvik hafa verið tilkynnt lögreglu, að því er danska dýra- og matvælastofnunin segir í tilkynningu. Því er bætt við að minkunum muni verða lógað.
Danmörk var áður helsti útflytjandi minkaskinns í heiminum en yfirvöld ákváðu í fyrra að lóga öllum minkum í landinu, eða alls 15-17 milljónum dýra. Var það gert eftir að rannsóknir gáfu til kynna að afbrigðið sem fannst í sumum dýranna gæti gert bóluefnum framtíðarinnar erfitt fyrir.
Þing landsins samþykkti síðar neyðarlög sem bönnuðu ræktun dýranna á þessu ári, en þau voru svo framlengd út næsta ár.
Málinu hafa fylgt miklar deilur, ekki síst eftir að í ljós kom að upphaflega fyrirskipunin um lógun dýranna hafði engin lög til að styðjast við. Landbúnaðarráðherrann sagði í kjölfarið af sér.
Í framhaldinu náðist samkomulag sem renndi lagastoð undir ákvörðun ríkisstjórnarinnar. Héldu yfirvöld þá áfram að aflífa dýrin.
Sérstök þingnefnd hefur síðan í apríl rannsakað þessa ákvörðun, aðdraganda hennar og öll gögn sem henni tengjast, ásamt því að yfirheyra vitni að ákvörðunartökunni.
Forsætisráðherrann Mette Frederiksen hefur varið ákvörðunina og tjáði nefndinni fyrr í mánuðinum að hún teldi það „lykilatriði að við brugðumst hratt við“.
Nokkrum vikum eftir að minkum landsins var lógað var því lýst yfir að afbrigðið hefði dáið út.