„Boltinn er hjá þeim“

Pútín á blaðamannafundi sínum í dag.
Pútín á blaðamannafundi sínum í dag. AFP

Vladimír Pútín forseti Rússlands segir það jákvætt að stjórnvöld í Washington séu reiðubúin að ræða kröfur Kremlverja, sem sagðar eru eiga að sporna við útþenslu Atlantshafsbandalagsins til austurs.

Pútín hélt árlegan árslokafund sinn fyrir blaðamenn í dag, á sama tíma og áhyggjur fara vaxandi á Vesturlöndum af mögulegri innrás rússneska hersins í Úkraínu.

Stjórnvöld í Kreml kynntu kröfur sínar í síðustu viku, en þess er meðal annars krafist að Atlantshafsbandalagið muni ekki leyfa fleiri ríkjum að ganga til liðs við sig. Bandaríkin megi þá ekki koma á fót nýjum herstöðvum í ríkjum fyrrum Sovétríkjanna.

Horft yfir Kreml í gær, í 21 gráðu frosti.
Horft yfir Kreml í gær, í 21 gráðu frosti. AFP

Jákvæð viðbrögð

Frá Washington bárust þau svör að Bandaríkin væru tilbúin að ræða þessar tillögur, en þau séu ósammála hluta þeirra. Þess var einnig krafist að evrópskir bandamenn þeirra tækju líka þátt í viðræðunum.

„Boltinn er hjá þeim. Þau þurfa að gefa okkur eitthvað svar,“ sagði Pútín á blaðamannafundinum í dag, en bætti við:

„Á heildina litið þá sjáum við jákvæð viðbrögð.“

Tók hann fram að stjórnvöld beggja landa væru reiðubúin að hefja viðræður í upphafi komandi árs í Genf. Báðum megin borðsins hafi fulltrúar þegar verið skipaðir.

Því var fagnað í Moskvu á þriðjudag að 142 ár …
Því var fagnað í Moskvu á þriðjudag að 142 ár voru liðin frá fæðingu Jósefs Stalíns. AFP

Veiti aðskilnaðarsinnum aðstoð

Spenna í tengslum við Rússland hefur farið ört vaxandi síðustu vikur, eða frá því um miðjan nóvember þegar stjórnvöld vestanhafs bentu á að mikið herlið Rússa hefði safnast saman við landamærin til vesturs að Úkraínu. Var Pútín sakaður um að leggja á ráðin um innrás.

Spennan náði hámarki fyrr í vikunni þegar Pútín varaði við því að Rússar væru tilbúnir til að grípa til „hernaðarlegra aðgerða“ í garð Vesturlanda ef þau létu ekki af „augljóslega fjandsamlegri afstöðu“ sinni til Rússlands.

Hann kynnti einnig vopnabúr nýrra ofurhljóðfrárra flauga, sem hann hefur áður lýst sem „ósigranlegum“. Tók hann fram að þessar flaugar væru nú nærri því að vera reiðubúnar til notkunar í orrustu.

Vesturlönd hafa lengi sakað Kreml um veita beina hernaðaraðstoð til aðskilnaðarsinna í austurhluta Úkraínu, sem tóku völdin í tveimur héruðum skömmu eftir að Rússland innlimaði Krímskagann árið 2014. Pútín hefur hafnað þessum ásökunum.

Frá jólaþorpi í úkraínsku höfuðborginni Kænugarði fyrr í vikunni.
Frá jólaþorpi í úkraínsku höfuðborginni Kænugarði fyrr í vikunni. AFP

Ekki hægt að sigra Rússland að utan

Á blaðamannafundinum í dag vék hann einnig að fordæmalausum fjöldahandtökum gegn fólki sem gagnrýnt hefur stjórnvöld í Kreml. Sagði hann aðgerðirnar beinast að því að takmarka erlend áhrif í landinu.

„Ég minni ykkur á það sem óvinir okkar hafa sagt í fleiri aldir: Rússland getur aldrei unnist, því getur aðeins verið tortímt innan frá.“

Bætti hann við að það hefðu verið deilur innanlands sem felldu Sovétríkin, í desembermánuði fyrir þrjátíu árum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert