Dönsk stjórnvöld greindu frá því í dag að allir erlendir ríkisborgarar sem vilji koma inn í landið verði að framvísa neikvæðu Covid-prófi sama þótt viðkomandi hafi hlotið bólusetningu eður ei.
Reglugerðin tekur gildi 27. desember og er þetta í takti við þær ráðstafanir sem Svíar og Finnar kynntu fyrr í vikunni.
Samkvæmt þessu þurfa að allir erlendir ríkisborgarar og fólk sem er ekki búsett í Danmörku að framvísa neikvæðu PCR-prófi, sem má ekki vera eldra en 72 klukkustunda gamalt, eða neikvæðu hraðprófi, sem má ekki vera eldra en 48 klukkustunda gamalt. Þetta kemur fram í tilkynningu sem danska heilbrigðisráðuneytið sendi frá sér í dag.
Þeir einu sem hljóta undanþágu frá þessum nýju reglum eru einstaklingar sem geta sýnt fram á að þeir hafi náð sér eftir að hafa fengið Covid, börn og fólk sem býr við dönsku landamærin.
Danskir ríkisborgarar sem eru að snúa aftur til síns heima þurfa því að taka próf sem þeir verða að framvísa til að verða hleypt aftur inn í landið.
Reglugerðin á allavega að gilda til 17. janúar. Brjóti menn reglurnar þá geta þeir átt von á því að hljóta 3.500 danskra kr. sekt, sem samsvarar um 70.000 kr.
Danmörk hefur verið grátt leikin vegna gríðarlegrar fjölgunar kórónuveirusmita á undanförnum viku. Nýgengi smita jókst um 50% í liðinni viku í samanburði við þá fyrri að sögn heilbrigðisyfirvalda.
Heilbrigðisráðherra landsins sagði í fyrradag að Ómíkron-afbrigði kórónuveirunnar væri nú allsráðandi í Danmörku. En aðeins er um einn mánuður liðinn frá því það afbrigði greindist fyrst í landinu. Sl. sólarhring greindust 13.558 ný smit sem er met.
Alls hafa 673.807 smit greinst í landinu og 3.173 látist af völdum Covid-19 frá því faraldurinn hófst. Íbúafjöldi Danmerkur er 5,8 milljónir.