Yfirvöld í S-Afríku hætta smitrakningu

Frá alþjóðaflugvellinum í Jóhannesarborg í nóvember.
Frá alþjóðaflugvellinum í Jóhannesarborg í nóvember. AFP

Heilbrigðisyfirvöld í Suður-Afríku hafa ákveðið að hætta að rekja smit þeirra sem sýkjast af Covid-19, þar sem þau telja að meirihluti landsmanna hafi þegar verið útsettur fyrir veirunni.

Yfirmaður heilbrigðismála í landinu, Sandile Buthelezi, sagði í skeyti til embættismanna í gærkvöldi að ríkisstjórnin ætlaði nú að snúa sér að því að minnka skaðann af veirunni með því að leggja áherslu á að fólk gætti sjálft að einkennum, notaði grímu og héldi fjarlægð hvert frá öðru.

Skrifaði Buthelezi að hlutfall þeirra sem væru með eitthvert ónæmi vegna sýkingar og/eða bólusetningar væri hátt.

Ekki lengur viðeigandi

„Takmörkunaraðgerðir eru ekki lengur viðeigandi – skaðaminnkun er eina raunhæfa leiðin. Þetta á sérstaklega við um nýrri og meira smitandi afbrigði á borð við Ómíkron,“ segir í skeyti hans.

„Allri smitrakningu verður hér með hætt,“ bætti hann við.

Undanþágur verða gerðar í tilvikum þar sem um er að ræða afmörkuð rými eins og fangelsi eða skóla, og alvarlegar klasasýkingar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert