Yfirvöld á Spáni tilkynntu í dag að eldgosinu í Cumbre Vieja-eldfjallinu á eyjunni La Palma, sem er hluti af Kanaríeyjum, væri formlega lokið. Þrír mánuðir eru síðan gosið hófst og hraun rann niður hlíðar fjallsins og olli gífurlegu tjóni.
„Gosið stóð yfir í áttatíu og fimm daga og átján klukkustundir,“ hefur AFP eftir Julio Perez, forstöðumanni viðbragðsteymis eldgosa á Kanaríeyjum.
Enginn lést af völdum gossins, né heldur slasaðist. En þrír mánuðir af gosi, ásamt meðfylgjandi öskufalli og síbreytilegum straumi hraunáa, hafa skilið eftir sig mikla eyðileggingarslóð.
1.345 heimili gereyðilögðust í gosinu sem og skólabyggingar, kirkjur, heilbrigðisstofnanir og landbúnaðarinnviðir.