Ekki hafa jafn mörg smit greinst í Kína í fjóra mánuði og greint var frá í dag. Samtals voru smitin þó ekki nema 140, þar af 87 sem greindust innanlands. Daginn áður voru smitin 55.
Flest smitin voru í borginni Xi'an í héraðinu Shaanxi í norðvesturhluta landsins. Þar búa um 13 milljónir manna og hefur gilt útgöngubann síðan á fimmtudaginn.
Kína hefur tekið mjög hart á öllum smitum eftir að faraldurinn fór af stað, en þar er stefnan að ná smitum niður í núll. Hafa takmarkanir á landamærum meðal annars verið mjög miklar, krafa hefur verið uppi um langa sóttkví og útgöngubann hefur verið sett á þar sem smit hafa komið upp. Þrátt fyrir það virðist veiran hafa náð að grassera undanfarið og fjölgar tilfellum.
Þessi misserin er sérstaklega vel fylgst með útbreiðslu veirunnar í landinu, en áformað er að halda vetrarólympíuleikana í Peking í febrúar.
Í Xi'an hefur útgöngubannið t.a.m. aðeins heimilað einum frá hverri fjölskyldu að fara út annan hvern dag til að kaupa nauðsynjar. Þá þurfa íbúar sérstaka heimild frá vinnuveitenda eða yfirvöldum til að fara frá borginni.
Samtals hafa komið upp 330 smit í Xi'an síðan faraldurinn fór af stað. Þrátt fyrir að það teljist ekki há tala miðað við víðast annars staðar í veröldinni hefur engu að síður 26 opinberum starfsmönnum þegar verið refsað vegna slakra sóttvarna.