Níu úlfar sluppu í frönskum dýragarði

Níu úlfar sluppu út í dýragarði í Frakklandi. Myndin er …
Níu úlfar sluppu út í dýragarði í Frakklandi. Myndin er úr safni. AFP

Loka þurfti frönskum dýragarði tímabundið í gær eftir að níu úlfar sluppu út úr afgirtu svæði innan Trois Vallées zoo-dýragarðsins í Montredon-Labessonnie í suðurhluta Frakklands.

Úlfarnir náðu að skemma öryggislæsingu og klifra yfir girðingu, en þeir komust þó aldrei út fyrir dýragarðinn sjálfan að því er fram kemur í frétt BBC.

Fjórir úlfanna voru skotnir til bana vegna „hættulegrar hegðunar“ að sögn yfirvalda á svæðinu. Hinir fimm náðust eftir að hafa fengið svefnlyf. Samkvæmt upplýsingum yfirvalda voru ekki margir gestir í garðinum í gær og ekki er talið að neinn hafi verið í mikilli hættu.

Á heimasíðu dýragarðsins stendur að garðurinn verði lokaður fram í miðjan febrúar vegna „mikilvægrar vinnu“.

Garðurinn er meira en 60 hektarar að stærð með yfir 600 dýrum. Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem þurft hefur að loka honum tímabundið, en yfirvöld í Frakklandi neyddu forsvarsmenn garðsins til að loka tímabundið í október eftir að áhyggjur komu upp um verðferð dýra og öryggi starfsmanna. Dómstóll sneri þeirri niðurstöðu hins vegar við nokkrum dögum seinna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert