Kraftmesti geimsjónaukinn í sögu mannkyns tók á loft fyrr í dag um borð í eldflaug frá Franska Gvæjana. Áfangastaðurinn er um 1,5 milljónum kílómetra frá jörðu, þar sem hann á að geta skyggnst aftur í tímann, þökk sé því hversu lengi ljós er á leiðinni frá fjarlægari stöðum veraldar.
James Webb-sjónaukinn, sem tekið hefur yfir þrjá áratugi að þróa og kostað jafnvirði 1.300 milljarða króna, yfirgaf reikistjörnuna okkar með hjálp Ariane 5-eldflaugarinnar sem skotið var frá Kourou-geimskotsstöðinni í Suður-Ameríku.
„Hversu dásamlegur dagur. Það eru sannarlega jól,“ sagði Thomas Zurbuchen, yfirmaður vísindaverkefna hjá NASA, sem ásamt hliðstæðum stofnunum Evrópu og Kanada byggði sjónaukann.
Allt gekk að sögn að óskum og búist er við að taka muni mánuð fyrir sjónaukann að ná á áfangastað sinn.