Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, hefur krafið breska ríkið um meira en þrjár milljónir punda, eða um hálfan milljarð króna, vegna tekjumissis af völdum Covid-19 en hann á nokkra golfvelli og afþreyingarfyrirtæki í Skotlandi.
Fyrirtæki Trumps sem sér um vellina hefur þegar fengið um 2,3 milljónir punda frá breskum stjórnvöldum upp í þessa kröfu, þar sem golfvellirnir voru skyldaðir til þess að loka í um níu mánuði á meðan heimsfaraldurinn hefur staðið yfir.
Á vef BBC segir að lúxushótelið og golfvöllurinn Trump Turnberry í Ayrshire greini frá þriggja milljóna punda tekjumissi á árinu 2020 sem er helmingur af ársinnkomu Trump Turnberry.
Móðir Trumps var frá eynni Ljóðhúsum norður af Skotlandi og hefur Trump talað hlýlega um skoskt ætterni sitt.
Hann opnaði fyrsta golfvöllinn í Aberdeenshire árið 2012 og hlaut mikla gagnrýni frá umhverfisverndarsinnum sem töldu hann eyðileggja umhverfið.
Síðar reyndi Trump að stöðva byggingu vindorkuvers í grennd við völlinn með þeim rökum að vindmyllurnar eyðilegðu útsýni hans.
Eftir að hann tók við embætti forseta árið 2017 tóku synir hans Donald jr. og Eric við stjórn golfvallanna.
Trump vann nýlega mál þar sem þess var krafist að skosk stjórnvöld hæfu rannsókn á hvernig hann greiddi fyrir golfvellina.
Í yfirlýsingu frá Eric Trump segir að peningurinn frá ríkinu hafi komið í veg fyrir að segja þyrfti upp fleira starfsfólki en nauðsynlegt var.