Desmond Tutu látinn

Desmond Tutu er látinn, 90 ára að aldri.
Desmond Tutu er látinn, 90 ára að aldri. AFP

Des­mond Tutu, erki­bisk­up í Suður-Afr­íku, mannréttindafrömuður og friðar­verðlauna­hafi Nó­bels, er látinn, 90 ára að aldri.

Tutu var meðal annars þekktur sem einn harðasti baráttumaðurinn gegn aðskilnaðarstefnunni í Suður-Afríku og fyrir að tala máli mannréttinda í víðu samhengi. Hann leiddi sannleiksnefnd á tíma aðskilnaðarstefnunnar í Suður-Afríku í kjölfar þess að Nelson Mandela tók við sem forseti landsins árið 1994.

Tutu hlaut friðarverðlaun Nóbels árið 1984 vegna baráttu sinnar gegn aðskilnaðarstefnunni, en hann sagðist alltaf trúa því að hægt væri að sameina þjóðina og talaði hann þá gjarnan um „regnbogaþjóðina“.

Hann var þekktur fyrir að halda ekki aftur af gagnrýni sinni, hvort sem það var á dögum aðskilnaðarstefnunnar, eða eftir hana þegar hann gagnrýndi Afríska þjóðarráðið (ANC), flokk Mandela, fyrir spillingu. Hann og Mandela voru góðir vinir og gisti Mandela meðal annars fyrstu nóttina eftir að hann losnaði úr 27 ára fangelsi á heimili Tutus.

Fjölmargir hafa lýst Tutu sem einstökum manni í gegnum tíðina. Þannig sagði Dalai Lama að Tutu væri „andlegur eldri bróðir“ sinn og tónlistar- og baráttumaðurinn Bob Geldof sagði hann gríðarlega óþægilegan fyrir valdhafa. Barack Obama, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, sagði Tutu „siðferðilegan risa“.

Meðal þeirra málefna sem Tutu talaði fyrir í gegnum tíðina, annarra en þeirra sem tengdust aðskilnaðarstefnunni, voru réttindi samkynhneigðra, andstaða við barnabrúðkaup, barátta Tíbets, gagnrýni á eigin kirkju vegna spillingar og rétturinn til að fá að deyja. Þá vildi hann að vestrænir leiðtogar sættu ábyrgð vegna Íraksstríðsins og að Palestína yrði viðurkennd sem sjálfstætt ríki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert