Jared Schmeck, viðmælandi Joes Bidens Bandaríkjaforseta í útsendingu á aðfangadag, sem vann sér til frægðar að hrekkja Biden, sagði að meiningin hefði ekki verið illkvittni heldur hefði einungis verið um spaug að ræða.
Schmeck sagði í símtali við Biden „Let's Go Brandon“ eða „Áfram Brandon“ en kveðjan er orðin þekkt á meðal stuðningsmanna Donalds Trumps fyrrverandi forseta. Í þeirra huga þýðir hún þó í raun: „Fjandinn hirði Joe Biden.“ Nú eða: „Fuck Joe Biden.“
„Þegar allt kemur til alls hef ég ekkert á móti herra Biden, en ég er óánægður af því ég held að hann gæti gert betur. Ég er ekki að vanvirða hann,“ sagði hinn 35 ára gamli Schmeck í viðtali við dagblaðið the Oregonian.
Schemck segist ekki vera gallharður stuðningsmaður Trumps heldur „Bandaríkjamaður með frjálsa hugsun og fylgjandi Jesú Krists“.
Myndskeiðið af kveðjunni hefur dreifst hratt um samfélagsmiðla og sagði Schmeck að hann hefði orðið fyrir „árásum fyrir að nýta rétt sinn til tjáningarfrelsis“.
Grein á vef The Guardian.