Rómverskt virki byggt af Kalígúla keisara fannst nálægt Amsterdam í Hollandi en talið er að virkið hafi leikið lykilhlutverk í innrás Rómverja í Bretland árið 43, að því er segir í umfjöllun The Guardian.
Rannsóknir benda til þess að rómversk hersveit sem samanstóð af nokkur þúsund hermönnum hafi verið staðsett í virkinu í Velsen, rúmum 30 kílómetrum frá Amsterdam, á bökkum Oer-IJ, þverár Rínar.
Dr. Arjen Bosman, fornleifafræðingurinn á bak við fundinn, sagði að sönnunargögnin bentu til þess að Velsen hefði verið nyrsta virki rómverska heimsveldisins og verið byggt til að halda germanska ættbálknum Chauci í skefjum meðan rómverskar hersveitir bjuggu sig undir að fara frá Boulogne í Frakklandi til suðurstrandar Englands.
Herbúðir voru í virkinu og virðist það hafa verið byggt af Kalígúla keisara til að undirbúa misheppnaða tilraun hans til að ná undir sig Bretlandi árið 40 en það var síðan þróað og nýtt af eftirmanni hans, Kládíusi, fyrir innrásina í Bretland árið 43.
Bosman sagði: „Við vitum með vissu að Kalígúla var í Hollandi þar sem merkingar eru á víntunnum úr viði með upphafsstöfum keisarans.“
Bosman sagði Kalígúla hafa komið til Hollands til að undirbúa innrásina í Bretland og til að ná sams konar hernaðarafrekum og Júlíus Sesar. Honum hafi þó ekki tekist að klára verkið þar sem hann var myrtur árið 41 og Kládíus tók við.
„Við fundum viðarplanka undir varðturninum, eða undir hliði virkisins,“ sagði Bosman og bætti við: „Viðarplankinn hefur verið dagsettur veturinn 42/43. Það er yndisleg dagsetning. Ég hoppaði upp í loftið þegar ég heyrði það.“
Árið 1945 fundu skólabörn fyrstu sönnunargögn um rómverskt virki í Velsen en þau fundu leirmuni í yfirgefnum þýskum skriðdrekaskurði.
Árið 1997 uppgötvaði Bosman rómverska skurði á þremur stöðum og vegg og hlið og voru það talin nægileg sönnunargögn fyrir því að svæðið yrði fornleifasvæði og því er það verndað af ríkinu.
Það var þó ekki fyrr en nú í nóvember að ljóst varð að um væri að ræða 11 hektara herbúðir.