Maður sem klessti Porsche-bíl á M25-hraðbrautinni sem liggur umhverfis London hélt áfram að keyra bílinn rúma 32 kílómetra (20 mílur) þrátt fyrir að bíllinn væri gjöreyðilagður, að því er fram kemur á vef Sky-fréttastofunnar.
Lögreglan í Surrey sagði bíllinn hafa verið fjarlægðan af veginum og bílstjórinn hefði verið kærður fyrir að keyra bíl þótt hann væri í hættulegu ásigkomulagi.
Lögreglan sagði að þegar bifreiðin var stöðvuð af lögreglumönnum á hraðbrautinni nálægt Cobham í Surrey hefði ökumaðurinn sagt að slysið hefði átt sér stað í Kent.
Á mynd sem lögreglan birti á Twitter má sjá verulegar skemmdir á aftari hluta bifreiðarinnar. Svo virðist sem hluti bílsins hafi dottið af honum og sitji nú fastur í skottinu.
We stopped this vehicle seen driving on the #M25 near Cobham. The driver told officers he had crashed the car on the M25 in Kent and thought it would be ok to continue the journey in this condition. The driver gave a positive breath test but was under the prescribed limit. 1of2 pic.twitter.com/vJN15MRK44
— Roads Policing Unit (RPU) - Surrey Police - UK (@SurreyRoadCops) December 26, 2021
„Ökumaðurinn sagði lögreglumönnum að hann hefði lent í árekstri í Kent og taldi að það væri í lagi að halda ferðinni áfram í þessu ástandi,“ sagði í twitterfærslu lögreglunnar.
Þá sagði í færslunni að áfengi hefði mælst í blóði ökumannsins en hann hefði þó verið undir tilskildum mörkum.
„Ökutækið hefur verið tekið úr umferð og ökumaðurinn kærður fyrir akstur ökutækis í hættulegu ástandi. Bílstjórinn mun nú leita annars ferðamáta,“ sagði á Twitter.