Keyrði gjöreyðilagðan bíl 32 kílómetra

Bifreiðin væri í mjög hættulegu ásigkomulagi.
Bifreiðin væri í mjög hættulegu ásigkomulagi. Ljósmynd/Twitter

Maður sem klessti Porsche-bíl á M25-hraðbrautinni sem liggur umhverfis London hélt áfram að keyra bílinn rúma 32 kílómetra (20 mílur) þrátt fyrir að bíllinn væri gjöreyðilagður, að því er fram kemur á vef Sky-fréttastofunnar.

Lögreglan í Surrey sagði bíllinn hafa verið fjarlægðan af veginum og bílstjórinn hefði verið kærður fyrir að keyra bíl þótt hann væri í hættulegu ásigkomulagi.  

Lögreglan sagði að þegar bifreiðin var stöðvuð af lögreglumönnum á hraðbrautinni nálægt Cobham í Surrey hefði ökumaðurinn sagt að slysið hefði átt sér stað í Kent. 

Hluti bílsins fastur í skottinu

Á mynd sem lögreglan birti á Twitter má sjá verulegar skemmdir á aftari hluta bifreiðarinnar. Svo virðist sem hluti bílsins hafi dottið af honum og sitji nú fastur í skottinu.

„Ökumaðurinn sagði lögreglumönnum að hann hefði lent í árekstri í Kent og taldi að það væri í lagi að halda ferðinni áfram í þessu ástandi,“ sagði í twitterfærslu lögreglunnar.

Þá sagði í færslunni að áfengi hefði mælst í blóði ökumannsins en hann hefði þó verið undir tilskildum mörkum.

„Ökutækið hefur verið tekið úr umferð og ökumaðurinn kærður fyrir akstur ökutækis í hættulegu ástandi. Bílstjórinn mun nú leita annars ferðamáta,“ sagði á Twitter.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert