Karlmaður á fimmtugsaldri og tveir ungir synir hans létust í gær, á jóladag, í Quakertown í Bandaríkjunum, þegar kviknaði í húsi þeirra, en upphaflega hafði kviknað í jólatrénu. Talið er líklegt að kviknað hafi í trénu út frá rafmagni en einnig var jólatréð mjög þurrt að því er segir á vef CNN.
„Upptök eldsins voru í jólatrénu, svo við erum ekki viss um hvort það sé vegna rafmagns eða jólatrés sem var orðið þurrt og gamalt,“ sagði Wilhelm, slökkviliðsstjóri í Quakertown, við CNN.
Lögregla og slökkvilið mættu á vettvang aðfaranótt laugardags en fjölskyldumeðlimirnir fimm voru sofandi á efri hæð hússins þegar eldurinn braust út. Slökkviliðsmenn reyndu ítrekað að komast inn í húsið en sökum umfangs eldsins reyndist þeim það erfitt að sögn slökkviliðsstjóra á svæðinu.
Eins og áður segir létust þrír í eldsvoðanum en móðir drengjanna náði að komst út ásamt elsta syni hjónanna og sluppu þau með aðeins minni háttar brunasár. Tveir hundar fjölskyldunnar drápust einnig í eldsvoðanum.