Alþjóðlegu góðgerðarsamtökin Barnaheill (e. Save the Children) segja að tveggja starfsmanna þeirra sé saknað eftir mannskæða árás í Mjanmar. Sagt er að her landsins hafi framið árásina.
BBC greinir frá.
Góðgerðarsamtökin segja hermenn hafa þvingað fólk út úr bílum sínum, handtekið suma, drepið aðra og brennt lík í austurhluta Kayah-fylkis. Herinn heldur því fram að hann hafi drepið fjölda vopnaðra hryðjuverkamanna á svæðinu.
Í yfirlýsingu frá Barnaheillum er árásin fordæmd og sagt að minnst 38 hafi látið lífið. Þau segja tvo starfsmenn sína, sem voru á leið heim yfir hátíðirnar, hafa orðið fyrir árásinni og sé saknað. „Við höfum staðfest að ráðist var á einkabíl þeirra,“ segir í yfirlýsingunni.
„Við erum skelfingu lostin yfir ofbeldinu sem beitt var gegn saklausum borgurum og starfsmönnum okkar sem hafa unnið dygðugt mannúðarstarf sem styður milljónir barna í neyð víðsvegar um Mjanmar,“ bætti Inger Ashing, framkvæmdastjóri Barnaheilla, við.
Fjöldamótmæli hafa átt sér stað víðsvegar um Mjanmar síðan herinn náði völdum í febrúar. Kjörinn leiðtogi Mjanmars, Aung San Suu Kyi, og félagar í flokki hennar eru meðal þeirra sem eru í haldi hersins.