Þúsundum flugferða aflýst vegna Ómíkron

Þúsundum fluga hefur verið aflýst síðustu daga.
Þúsundum fluga hefur verið aflýst síðustu daga. AFP

Ferðalög hafa reynst milljónum manna víðs vegar um heiminn ansi erfið þessa jólahelgina en fjölda flugferða hefur verið aflýst sökum Ómíkron-afbrigðis kórónuveirunnar.

2.200 flugferðum var aflýst í dag en alls hefur um 7.500 ferðum verið aflýst síðan á aðfangadag. Auk þess hefur tugþúsundum flugferða verið seinkað en þessi árstími er almennt annasamasti ferðatíminn. Þá hefur fjöldi flugfélaga sagt að kórónuveirusmit meðal starfsmanna hafi valdið skorti á starfsfólki.

Áhrifanna gætir um allan heim og búist er við að fleiri flugferðum verði aflýst í vikunni. Að minnsta kosti 735 flugferðum á morgun hefur verið aflýst og 160 á þriðjudag samkvæmt FlightTracker sem fylgist með stöðu flugferða.

Gripið til frekari takmarkana 

Um allan heim hafa greinst tilfelli af hinu mjög svo smitandi Ómíkron-afbrigði og hefur fjöldi landa gripið til takmarkana á nýjan leik. Helstu íþróttadeildir aflýstu fótbóltaleikjum og ruðningsleikjum sem átti að halda í dag, annan í jólum. Þá hafa stjórnvöld víðsvegar um heiminn eflt sýnatökur og bólusetningar.

Í borginni Xi'an í Kína hefur verið gripið til útgöngubanns og 13 milljónum íbúa því gert óheimilt að yfirgefa heimili sín en fleiri höfðu ekki greinst með kórónuveiruna í Kína í 21 mánuð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert