Um 8.000 flugferðum hefur verið aflýst yfir jólin og til dagsins í dag um allan heim, vegna veikinda, einangrunar og sóttkvíar starfsfólks flugfélaga sökum kórónuveirunnar. Bara í dag hefur 1.400 flugferðum verið aflýst, en bandarísk og kínversk flugfélög hafa orðið verst úti vegna þessa, samkvæmt vefsíðunni flightaware.com. BBC greinir frá.
Flugfélagið China Eastern hefur til að mynda þurft að aflýsa 368 flugferðum og Air China 141 ferð í dag. Á sama tíma hefur bandaríska flugfélagið United þurft að aflýsa 84 flugferðum og JetBlue 66, en á jóladag þurfti að aflýsa um 10 prósentum allra flugferða hjá bandarísku flugfélögunum tveimur.
Þá hafa yfirvöld í Hong Kong lagt bann við öllum flugferðum til landsins frá suðurkóreskum flugfélögum næstu tvær vikurnar eftir að smit greindust hjá einhverjum farþegum sem komu til landsins.
Þrátt fyrir að þetta sé ekki há prósenta af öllum flugferðum í heiminum yfir þennan háannatíma hefur töluvert fleiri flugferðum verið aflýst yfir hátíðarnar nú en í venjulegu árferði.
Yfirvöld í Bandaríkjunum fylgjast einnig vel með nokkrum skemmtiferðaskipum þar sem smit hafa komið upp um borð, en nokkrum þeirra hefur verið neitað um að leggjast að bryggju við eyjar í Karabíska hafinu.