Beitti neitunarvaldi á fjölmiðlalög

Andrzej Duda, forseti Póllands hefur áður neitað að skrifa undir …
Andrzej Duda, forseti Póllands hefur áður neitað að skrifa undir lög sem farið hafa í gegnum þingið. AFP

Í kjölfar þrýstings af hálfu Evrópusambandsins og Bandaríkjanna ákvað forseti Póllands, Andrzej Duda, að beita neitunarvaldi sínu og skrifa ekki undir lög um eignarhald fjölmiðla þar í landi. Þeir sem gagnrýnt höfðu frumvarpið sögðu það til þess gert að þagga niður í fréttastöðinni TVN24 sem er í eigu bandarísks fyrirtækis.

Í sjónvarpsávarpi sagði Duda: „Ég neita að skrifa undir lagabreytingarnar er snúa að eignarhaldi á útvarps- og sjónvarpsfjölmiðlum og sendi ég því lögin aftur til þingsins þar sem það skal endurskoðað. Þetta þýðir þá að ég beiti hér með neitunarvaldi forseta.“

Lögin sem þingið hafði samþykkt fyrr í mánuðinum höfðu komið í veg fyrir að fyrirtæki utan evrópska efnahagssvæðisins gætu átt meirihluta í pólskum fjölmiðlum.

Bandaríska fyrirtækið Discovery hefði þá, ef Duda hefði ekki neitað að skrifa undir, þurft að selja meirihluta sinn í TVN sem er ein af stærstu sjóvarpsfréttastöðvum landsins í einkaeigu.

Verja fjölmiðlaumhverfið

Ríkisstjórn landsins hafði þá beitt þeim rökum að löggjöfin myndi verja pólska fjölmiðla fyrir inngripi og áhrifum frá óvinveittum þjóðum, sér í lagi þá Rússlandi.

Duda sagðist sammála þessari röksemdafærslu en taldi óráðlegt að gildissvið laganna næði utan um viðskiptasamninga sem búið væri að gera.

Duda er almennt með stuðning Flokks laga og réttlætis, sem er ráðandi flokkur í Póllandi, en hann hefur þó sýnt það í verki endrum og eins að hann er ekki sammála öllu því sem flokksforystan leggur til.

Hann olli til að mynda töluverðum usla í pólskum stjórnmálum árið 2017 þegar hann neitaði að skrifa undir tvö lagafrumvörp sem vinna áttu endurbætur á dómskerfi landsins. Duda þótti þá frumvörpin veita dómsmálaráðherra of mikið vald.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert