Fundað um sóttvarnaaðgerðir í Frakklandi

Fundurinn er haldinn í gegnum fjarfundabúnað.
Fundurinn er haldinn í gegnum fjarfundabúnað. AFP

Líklegt þykir að nýjar sóttvarnaaðgerðir verði kynntar á eftir í Frakklandi en Emmanuel Macron forseti Frakklands fundar nú ásamt fulltrúum ríkisstjórnarinnar og heilbrigðisstofnana um málið.

Heilbrigðiskerfið stendur nú höllum fæti í Frakklandi en metfjöldi smita greindist þar á laugardag þegar um 100 þúsund einstaklingar fengu jákvæða niðurstöðu úr Covid-prófi.

Hátt í 3.300 sjúklingar liggja nú á gjörgæslu vegna Covid-19 í Frakklandi. Óttast sérfræðingar að smitum eigi eftir að fjölga til muna þegar líður á janúar.

Endurskoða skilyrði fyrir Covid-passann

Meðal þess sem er til skoðunar er að herða skilyrði vegna Covid-passans en honum þarf að framvísa til að fá aðgang að veitingastöðum, kvikmyndahúsum og öðrum opinberum stöðum. Gæti komið til þess að eingöngu bólusettir einstaklingar yrðu gjaldgengir fyrir slíkan passa og því ekki nóg að sýna fram á neikvæða niðurstöðu úr Covid-prófi til að öðlast hann.

Þá gæti einnig komið til þess að rekstraraðilar verði að krefja viðskiptavini um að framvísa bæði Covid-passa ásamt niðurstöðu úr neikvæðu Covid-prófi áður en þeim verði veittur aðgangur að krám, kaffihúsum og hugsanlega næturklúbbum, verði þeir opnaðir aftur í janúar.

Læknar vilja útgöngubann

Hópur lækna hefur einnig lagt til að útgöngubann verði tekið upp á gamlárskvöld og heilbrigðisstarfsmenn telja margir hverjir skynsamlegt að fresta endurkomu nemenda í skóla eftir jólafríið.

Grímuskylda utandyra er auk þess til skoðunar.

Þá hefur fólk verið hvatt til að bíða með stórar fjölskyldusamkomur yfir hátíðarnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert