32 ára gömul kona hefur verið ákærð fyrir að hafa myrt unnusta sinn með sverði á heimili þeirra í Missouri í Bandaríkjunum á aðfangadagskvöld.
Lögreglan var kölluð til þar sem konan sat fyrir utan heimili þeirra á föstudagskvöld í blóðugum fötum og sverð var í grasinu.
Þegar lögreglan kom á staðinn fann hún unnustann látinn.
Konan viðurkenndi verknaðinn við yfirheyrslur og sagði að þau hefðu neytt metamfetamíns fyrr um daginn. Hún taldi ýmsar verur lifa innra með kærasta sínum og að það þyrfti að stinga hann til að losa hann við þær.
Hún hefur verið ákærð fyrir morð og vopnalagabrot.