Stóra plágan er ekki ennþá komin fram

Mótefni gera hríð að kórónuveiru á manngerðri mynd. Bóluefni kunna …
Mótefni gera hríð að kórónuveiru á manngerðri mynd. Bóluefni kunna nú að hafa snúið taflinu við, en það má vænta fleiri faraldra.

Heilbrigðistölur frá Bretlandi, Danmörku og Suður-Afríku benda allar í sömu átt um að Ómíkron-afbrigði kórónuveirunnar leiði miklu síður til sjúkrahúsinnlagna en Delta-afbrigðið, sem hefur verið ráðandi síðastliðið ár.

Það vekur eindregnar vonir um að Ómíkron-afbrigðið sé vægara en fyrri afbrigði, þó það sé talsvert smitgjarnara og geti smitað fólk, sem áður hefur smitast af veirunni eða fengið bólusetningu. Sérfræðingar vara þó við of mikilli bjartsýni, því ef smitið breiðist nógu ört og víða út geti það sligað heilbrigðistkerfi, þó alvarleg veikindi séu hlutfallslega mun fátíðari.

Sem fyrr er óbólusett fólk í mestri hættu, en þeir sem hafa smitast og fundið fyrir einkennum af völdum Ómíkron þrátt fyrir bólsetningu eða fyrra smit hafa nær undantekningarlaust fundið fyrir mildum einkennum.

Það segir hins vegar sína sögu að á aðeins nokkrum vikum hefur Ómíkron-afbrigðið náð yfirhöndinni í nýsmitum, sem gefur vonir um að það geti útrýmt fyrri og alvarlegri afbrigðum veirunnar. Rétt er þó að ítreka að það er nýframkomið og ekki ljóst hvort það kunni að hafa fleiri og alvarlegri afleiðingar.

Samt sem áður er ástæða til varlegrar bjartsýni og nú þegar eru ýmsar vísbendingar um að Ómíkron-bylgjan sé þegar farin að hjaðna í Bretlandi. Þar hefur bólusetning gengið vel, en auk þess hefur bóluefni AstraZeneca verið mest notað, en það hefur breiðari og mögulega langvinnari verkun en bóluefni Pfizer. Það kann að vera skýringin á því að Ómíkron virðist vera skeinuhættara á meginlandi Evrópu en í Bretlandi.

Stóra plágan ókomin

Þrátt fyrir að sumir eygi von um að heimsfaraldur kórónuveirunnar verði senn á enda, hvort sem veiran rennur sitt skeið, líkt og dæmi eru um, verði landlæg og væg, eða að ný bóluefni, líkt og Bandaríkjaher hefur þróað (SpFN), bindi enda á útbreiðslu hennar, þá er ekki allt um garð gengið enn. Vænta megi annarra og verri veirufaraldra.

Sérfræðingar hafa um talsverða hríð varað við því að búast megi við alvarlegum heimsfaröldrum frá Suðaustur-Asíu, sem eiga skjóta og greiða leið um alla heimsbyggðina með nútímasamgöngum heimsþorpsins. Þar leikur snaraukin þéttbýlismyndun í þróunarheiminum, einkum Kína, stórt hlutverk, auk ruðnings skóga, sem aftur auki líkur á að veirur berist úr dýrum í menn.

Eftir að kórónuveiran kom fram hafa stjórnvöld og almenningur verið viljugri til þess að hlusta á smitsjúkdómasérfræðinga, en samt hafa fæstir verið mjög móttækilegir fyrir viðvörunum um að kórónuveiran kunni að reynast sakleysisleg í samanburði við þær plágur sem upp gætu gosið á næstu árum.

Sérfræðingahópur á vegum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO) er meðal þeirra sem varað hafa við þessu. Þar er ekki aðeins rætt um að næsta plága kunni bæði að vera meira smitandi og lífshættulegri, heldur einnig að stutt geti verið í hana.

Vel er þekkt að smitfaraldrar hafa orðið algengari á undanförnumn áratugum, en þeir eru nú um tvöfalt tíðari en gerðist 1940-1960. Á síðustu 20 árum höfum við fengist við fuglaflensu, SARS, svínaflensu, MERS, Ebólu, Zika og nú Covid-19. Ráðum við við mikið fleiri?

Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert