Hundruð fengu ranga niðurstöðu úr sýnatöku

Mikil aðsókn hefur verið í sýnatöku í Ástralíu.
Mikil aðsókn hefur verið í sýnatöku í Ástralíu. AFP

Hátt í þúsund Ástralar fengu ranga niðurstöðu úr Covid-sýnatöku vegna mistaka á rannsóknarstofu í Sydney. Mistökin, sem rekja má til gagnavinnsluvillu, höfðu þau áhrif að 886 manns fengu neikvæða niðurstöðu úr sýnatöku þrátt fyrir að vera sýktir af veirunni.

BBC greinir frá.

Með tilkomu Ómíkron-afbrigðisins hefur smittíðni hækkað verulega í Ástralíu. Samhliða því hefur aðsókn í sýnatöku aukist til muna og hefur álagið reynst einhverjum rannsóknarstofum ofviða. Hafa Ástralar kvartað sáran undan því að bíða lengi eftir því að fá niðurstöður úr sýnatökum til baka og hefur enn öðrum hreinlega verið vísað frá sýnatökustöðum vegna aðsóknar.

Hundruð fengu ótímabæra niðurstöður

Í yfirlýsingu sem SydPath-rannsóknarstofan sendi frá sér í dag kemur fram að mikið magn sýna hafi valdið þessum mistökum sem áttu sér stað en alls fengu 886 einstaklingar ranga niðurstöðu. Þar af voru 400 sem fengu neikvæða niðurstöðu á jóladag en það var ekki fyrr en daginn eftir sem þau mistök voru leiðrétt.

Þá höfðu hundruð til viðbótar fengið neikvæða niðurstöðu til baka ótímabæra, eða áður en niðurstaðan lá fyrir. Af þeim reyndust 486 jákvæðir fyrir kórónuveirunni.

Samkvæmt yfirlýsingunni má rekja villuna til þess að við aukið álag hefði ákvörðun verið tekin um að færa úr sjálfvirku kerfi yfir í handvirkt. Til að koma í veg fyrir fleiri mistök hefur þessu verið snúið aftur við, auk þess sem færri sýni verða skoðuð í einu.

Hafa áhyggjur af fjölskyldum sínum

Þeir einstaklingar sem fengu upphaflega neikvæða niðurstöðu þrátt fyrir að vera jákvæðir hafa lýst yfir miklum áhyggjum vegna vina og vandamanna sem þeir hafa verið í samskiptum við yfir jólin.

„Það er það sem hræðir mig og veldur mér áhyggjum. Ef frænka mín og frændi greinast jákvæð, þá verður það mér að kenna því ég hef smitað þau,“ sagði Stephanie Colonna, ein þeirra sem fengu neikvæða niðurstöðu þrátt fyrir að vera sýkt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert