Minnst 31 lést þegar gullnáma hrundi

Vinnuaðstæður námuverkamanna í Súdan eru oftar en ekki óviðunandi og …
Vinnuaðstæður námuverkamanna í Súdan eru oftar en ekki óviðunandi og jafnvel lífshættulegar. AFP

Minnst 31 lést og átta týndust þegar gullnáma hrundi í Súdan í Norðaustur-Afríku í dag.

Slysið átti sér stað nærri bænum Nuhud, sem er um 500 kílómetra vestur af Khartoum, höfuðborg Súdans, að því er Khaled Dahwa, forstjóri ríkisrekna námufyrirtækisins Mineral Resources Company, greindi frá í samtali við fréttastofu AFP.

„Þrjátíu og einn verkamaður lét lífið þegar náman hrundi,“ sagði hann og bætti við að átta annarra verkamanna væri enn saknað.

Annar talsmaður fyrirtækisins segir fjóra námuverkamenn hafa látið lífið í sömu námu í janúar.

„Á þeim tíma létu yfirvöld loka námunni og juku öryggiseftirlit á svæðinu en fyrir nokkrum mánuðum var dregið úr eftirlitinu á ný.“

80 tonn á hverju ári

Það þykir sérstaklega hættulegt að starfa í gullnámum í Súdan enda eru innviðir þeirra ekki upp á marga fiska.

Starfsgreinin var þó í miklum blóma fyrir um áratug þegar grafið var eftir gulli víða um landið. Um tvær milljónir námuverkamanna framleiða nærri 80% af öllu gulli í Súdan eða um 80 tonn á hverju ári, samkvæmt opinberum gögnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert