Nokkur ringulreið ríkti á flugvöllum víða um heim í gær, þar sem hætta þurfti við um rúmlega 2.500 flugferðir vegna heimsfaraldursins til viðbótar við þær rúmlega 8.000 flugferðir sem frestuðust yfir alla jólahelgina. Var þegar í gær búið að fresta um 800 flugferðum sem áttu að vera í dag.
Jólin eru jafnan einn helsti ferðatími ársins, en skortur á starfsfólki neyddi mörg flugfélög til þess að seinka eða fresta áætlunarferðum sínum, þar sem ekki var hægt að manna áhafnir vélanna. Þá var einnig nokkuð um að starfsfólk flugvalla væri í einangrun eða sóttkví vegna fjölda smita.
Tilfellum hefur fjölgað gríðarlega hratt að undanförnu vegna Ómíkron-afbrigðisins. Þannig tilkynntu stjórnvöld í Danmörku og í Frakklandi um metfjölda tilfella í gær, og ræddi Emmanuel Macron Frakklandsforseti við embættismenn sína í gær um hertar aðgerðir til að stemma stigu við frekari smitum.
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, gaf hins vegar út í gær að ekki yrði hert á aðgerðum í Englandi fyrir áramótin, og verða því engar samkomutakmarkanir í gildi þar á gamlárskvöld, þrátt fyrir að metfjöldi smita hafi greinst þar á jóladag. Ekki var þó víst hvort efnt yrði til hertari aðgerða eftir áramótin, en kalla þarf þing saman til þess.
Joe Biden Bandaríkjaforseti sagði í gær að Bandaríkin væru vel í stakk búin til að takast á við nýjustu bylgjuna af kórónuveirunni, en hann varaði við því að sum sjúkrahús gætu yfirfyllst af sjúklingum vegna þess mikla fjölda sem nú er að smitast af veirunni. Sagði Biden að ástæða væri til að hafa áhyggjur af Ómíkron-afbrigðinu, en engin ástæða til að fyllast ofsahræðslu vegna þess.
Delaware, Havaí, Massachusetts, New Jersey og New York-ríki hafa öll tilkynnt metfjölda nýrra tilfella undanfarna sjö daga. Ætlar Bandaríkjastjórn að bæta aðgengi fólks að skimun á næstu vikum vegna þessa.
Yfirvöld í Flórída-ríki tilkynntu jafnframt í gær að þau væru að fylgjast vel með ferðum tveggja skemmtiferðaskipa í landhelgi sinni, þar sem fjöldi smita hefur komið upp um borð. Var skipunum vísað frá áfangastöðum sínum í Karíbahafi, og var beðið næstu skrefa í gær.