Setja þarf skýrar reglur um forgangsröðun sjúklinga

Covid sýktur einstaklingur í meðhöndlun á sjúkrahúsinu í Madgeburg, Þýskalandi.
Covid sýktur einstaklingur í meðhöndlun á sjúkrahúsinu í Madgeburg, Þýskalandi. AFP

Búa þarf til skýrar reglur til þess að verja fatlaða einstaklinga fyrir mismunun komi til þess að sjúkrahús í Þýskalandi standi frammi fyrir því að þurfa að forgangsraða sjúklingum, þ.e. velja og hafna hverjir fái meðhöndlun vegna álags. Dómstólar úrskurðuðu um málið í Þýskalandi í dag.

Senn líður að þriðja ári heimsfaraldursins og nú þegar Ómíkron leikur lausum hala um Evrópu hafa áhyggjur aukist þess efnis að sjúkrahús víða um Evrópu gætu staðið frammi fyrir því að geta ekki sinnt öllum vegna skorts á búnaði svo sem öndunarvélum. Þá þarf að forgangsraða sjúklingum og velja og hafna.

Níu fatlaðir einstaklingar í Þýskalandi fóru með málið fyrir dómstóla og óskuðu eftir að löggjafarvaldinu væri gert að búa til skýrar reglur komi til áðurnefndra aðstæðna á heilbrigðisstofnunum í landinu.

Viðmið en ekki reglur

Eins og stendur hefur starfsfólk einungis viðmið til þess að vinna eftir í stað skýrra verkferla og reglna. Meðal þeirra viðmiða sem heilbrigðisstarfsmenn í Þýskalandi þyrftu þá að meta sjúklingana út frá eru líkur á að meðferð skili árangri. Með öðrum orðum: þeir fá meðferð sem eru líklegastir til þess að lifa af.

Þrátt fyrir að ólöglegt sé í Þýskalandi að meta forgangsröðun sjúklinga út frá fötlun eða sjúkdómum sem eru arfgengir var það mat dómstólsins þar ytra að áhættan væri fyrir hendi á að fötlun gæti haft áhrif á mat á líkum sjúklinga til þess að lifa af.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert