Fjórtán ára gömul stúlka sem var skotin fyrir slysni í aðgerðum lögreglu í Los Angeles í Bandaríkjunum 23. desembersíðast liðinn lést í faðmi móður sinnar. Þetta kemur fram í yfirlýsingu móðurinnar sem lögmaður hennar las upp fyrir blaðamenn.
Þennan umrædda dag hafði stúlkan, sem heitir Valentina Orellana-Peralta, verið stödd í fataverslun með móður sinni þegar lögreglan, sem veitt hafði grunuðum einstaklingi eftirför, hóf skothríð inni í versluninni, að því er greint er frá í frétt BBC.
Ein byssukúlan fór í gegn um vegg og í Valentinu.
Soledad Peralta, móðir stúlkunnar, greindi frá því í yfirlýsingu að hún hefði grátbeðið lögregluþjóna að hjálpa særðri dóttur sinni en þeir hefðu ekki orðið við þeirri beiðni.
Í yfirlýsingunni lýsir Peralta því hvernig hún og dóttir hennar höfðu verið að máta kjóla fyrir afmælisveislu í verslun í Norður-Hollywood þegar þær heyrðu læti og öskur fyrir utan búningsklefana.
Þær hafi þá sest niður, fallist í faðma og beðið saman.
Peralta sagðist hafa fundið dóttur sína verða fyrir höggi sem kastaði þeim báðum í jörðina.
Við það hafi líkami Valentinu orðið líflaus en móðir hennar hafi reynt að vekja hana aftur til lífsins með því að hrista hana en það hafi ekki borið árangur. Valentina hafði dáið í örmum hennar.
Peralta sagðist hafa öskrað á hjálp en enginn hafði komið þeim mæðgum til aðstoðar.
„Þegar lögreglan kom loksins tók hún mig út úr búningsklefanum en skildi dóttur mína eftir á gólfinu. Ég vildi að þeir hjálpuðu henni en í staðinn létu þeir hana bara liggja eina inni í búningsklefanum.“
Peralta sagði það að sjá barn sitt deyja í örmum sínum vera einn „djúpstæðasta sársauka sem nokkur manneskja getur ímyndað sér“.
Michael Moore, lögreglustjóri í Los Angeles, hefur lofað því að þetta „óreiðukennda atvik“ verði rannsakað í þaula.
Þegar atvikið átti sér stað hafði lögreglan verið að bregðast við tilkynningum um karlmann sem hafði verið í annarlegu ástandi inni í versluninni og veist að viðskiptavinum með þungum hjólalás. Sá var einnig skotinn af lögreglu og lést hann af sárum sínum.
Samkvæmt tilkynningum vitna var maðurinn grunaður um að bera skotvopn en svo reyndist ekki vera þegar lögregluna bar að garði.
Upptökur úr líkamsmyndavélum lögreglunnar sýna hvernig lögreglunni tókst að króa manninn af er hann sló konu í versluninni.
Juan Pablo Orellana, faðir Valentinu, sagði aðgerðir lögreglumanna á vettvangi hafa verið gáleysislegar.
„Ég mun ekki hvílast fyrr en allir þessir glæpamenn eru komnir á bak við lás og slá,“ sagði hann.
Fjölskylda hinnar 14 ára gömlu Valentinu, sem var innflytjandi frá Síle, segja hana hafa haft mikla unun af því að renna sér á hjólabretti og hana hafi dreymt um að verða bandarískur ríkisborgari einn daginn.
Orellana sýndi blaðamönnum hjólabretti sem Valentina hafði fengið í jólagjöf og sagði það nú þurfa að fylgja henni til grafar svo hún gæti „rennt sér með englunum“.
„Það er eins og hjarta mitt hafi verið rifið úr brjóstkassanum,“ sagði hann.
„Það er ekki hægt að lýsa sársaukanum sem fylgir því að þurfa að opna jólagjafirnar til hennar sem hún hefði sjálf átt að fá að opna á jóladag.“