Meira en 90% tilfella i Bretlandi eru af Ómíkron-afbrigðinu samkvæmt nýjustu tölum frá heilbrigðisöryggisstofnun Bretlands (UKHSA).
Á vef Sky news er greint frá því að tæplega 40 þúsund smit hafi greinst í dag, sem er annar mesti fjöldi sem hefur greinst þar í landi. Metfjöldi greindist í fyrradag, alls 45 þúsund smit.
Rúmlega 210 þúsund Ómíkron-smit eru nú í Bretlandi og rúmlega 10 þúsund manns liggja inni á spítala vegna Covid-19.
Boris Johnson forsætisráðherra varaði við því í dag að Ómírkon ylli nú vandræðum og að þeim sem þyrftu að leggjast inn á spítala hefði fjölgað.
Hann bætti þó við að Ómíkron væri augljóslega mildara en Delta-afbrigðið sem þýddi að Bretar „gætu haldið áfram líkt og þeir hafa verið að gera“.
Þá sagði Johnson að örvunarskammtinum væri mikið að þakka en mikil áhersla var lögð á það fyrir jól að Bretar fengju þriðja skammtinn. Forsætisráðherrann sagði að 90% þeirra sem hefðu þurft að leggjast inn á spítala hefðu ekki fengið örvunarskammt.