Ákveðin málamiðlun að stytta ein­angr­un­ar­tíma

Michael Ryan, stjórn­andi neyðaraðgerða WHO.
Michael Ryan, stjórn­andi neyðaraðgerða WHO. AFP

Alþjóðaheilbrigðismálastofnun (WHO) sagði í dag það vera ákveðna málamiðlun að stytta ein­angr­un­ar­tíma Covid-smitaðra ein­stak­linga.

Sótt­varna­stofn­un Banda­ríkj­anna (CDC) mælti með því á mánudag að stytta  einangrunartíma ein­kenna­laus­ra um helming, eða úr tíu dögum í fimm. Þá hafa yfirvöld á Spáni einnig sagst ætla að stytta einangrunartímann fyrir alla, úr tíu dögum í sjö.

„Ef fólk styttir einangrunartímann mun lítill hópur af fólki þróa með sér sjúkdóminn og hugsanlega smita aðra, af því að einstaklingarnir hafa sloppið fyrr úr einangrun,“ sagði Michael Ryan, stjórn­andi neyðaraðgerða WHO, á blaðamannafundi.

Hann sagði þann hóp vera mjög smáan og að mun stærri hópur fólks myndi ekki smita aðra.

Erfitt að finna jafnvægi

„Þetta er því málamiðlun á milli vísindanna og að vera algjörlega fullkominn í öllu sem þú tekur þér fyrir hendur, á sama tíma að raska efnahags- og félagslífinu sem minnst. Ríkisstjórnir heimsins eiga erfitt með að finna það jafnvægi,“ sagði Ryan.

Leiðbeiningar WHO varðandi eingrunartíma eru þær að smitaður einstaklingur skuli vera í einangrun í tíu daga frá því að hann fær einkenni Covid-19 og að minnsta kosti þrjá daga til viðbótar í einangrun án einkenna. Þeir sem hafa engin einkenni skuli vera í einangrun í tíu daga frá því að smit greinist.

Ómíkron-afbrigðið geisar nú um heiminn.
Ómíkron-afbrigðið geisar nú um heiminn. AFP

Að sögn Ryans eru einkenni til staðar í fimm til sex daga, en það sé þó mismunandi. Litlar líkur væru þó á að einkenni birtust eftir sjö daga, því væri það stjórnvalda í hverju ríki fyrir sig að ákveða einangrunartíma.

Þá nefndi hann að nokkrar rannsóknir bentu til þess að einstaklingar smitaðir af Ómíkron-afbrigðinu hefðu einkenni í styttri tíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert