Metfjöldi Covid-19 smita greindist í vikunni 22.-28. desember á heimsvísu. Samkvæmt gögnum AFP-fréttaveitunnar greindist sex og hálf milljón einstaklinga með veiruna í liðinni viku.
Það er mesti fjöldi síðan Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) lýsti yfir að heimsfaraldur væri hafinn í mars árið 2020.
Þá greindist metfjöldi í nokkrum ríkjum í dag, meðal annars í Bandaríkjunum, Frakklandi og Danmörku. Ómíkron-afbrigðið herjar nú verst á Evrópu og greindist þrjár og hálf milljón tilfella í liðinni viku í álfunni.
Yfir 5,4 milljónir manna hafa látist vegna Covid-19 frá því faraldurinn hófst en í liðinni viku létust að meðaltali 6.450 á dag.