Barnalæknir og prófessor frá Texas í Bandaríkjunum hefur þróað nýtt bóluefni við Covid-19, Corbevax, sem á að vera ódýrari en önnur bóluefni við veirunni. Neyðarleyfi hefur verið gefið út fyrir notkun bóluefnisins á Indlandi.
Peter Hotez, læknir á barnaspítalanum í Texas, þróaði lyfið í samvinnu við Mariu Eleneu Bottazzi, prófessor við læknisfræðideild Baylor-háskólans í Houston, Texas, að því er greint er frá í tilkynningu frá barnaspítalanum.
„Þessi tilkynning er mikilvægt skref í því að bólusetja allan heiminn og stöðva heimsfaraldurinn,“ sagði Hotez.
Bóluefnið, sem þróunaraðilar kalla „Covid-bóluefni heimsins“, virkar á hefðbundinn hátt sem byggist á raðbrigðum prótínum, sem auðveldar fjöldaframleiðslu á bóluefninu og notkun þess um allan heim, að því er Business Insider greinir frá.
„Bóluefni byggð á prótínum hafa verið notuð til að koma í veg fyrir fjölda annarra sjúkdóma og er auðvelt að dreifa þeim um allan heim með litlum tilkostnaði,“ sagði Bottazzi.
Í tilkynningunni segir að lyfið hafi upphaflega verið þróað og framleitt á barnaspítalanum í Texas en Baylor-háskólinn hafi síðar gefið lyfjaframleiðandanum Biological E. Limited leyfi til þess að framleiða það.
Biological E. hefur nú þegar framleitt 300 milljón skammta af bóluefninu, að því er Hotez greindi frá á samfélagsmiðlinum Twitter í dag.
Minnst þrjú þúsund manns tóku þátt í þremur tveggja fasa rannsóknum sem framkvæmdar voru á bóluefninu og leiddu niðurstöður þeirra í ljós að bóluefnið veitti bæði örugga og áhrifaríka vernd gegn kórónuveirunni.
Þróun og framleiðslu á hinu nýja, ódýra bóluefni er ætlað að auka aðgengi þróunarríkja að bólusetningum, að því er greint er frá í tilkynningu frá barnaspítalanum í Texas.
„Víðtækar og alþjóðlegar bólusetningar með Corbevax myndu einnig koma í veg fyrir tilkomu nýrra afbrigða af veirunni. Við náðum ekki að koma í veg fyrir Alfa- og Delta-afbrigðið en nú er tækifæri til að koma í veg fyrir mögulega nýja alþjóðlega bylgju,“ sagði Hotez.
Sérfræðingar hafa áður varað við því að einokun efnaðri ríkja á bóluefnum gegn veirunni og skortur á aðgengi þróunarríkja að þeim geti leitt til þess að ný afbrigði fari að líta dagsins ljós og dreifa sér um heiminn.
Stjórnmálamenn í Texas hafa margir hverjir fagnað því að gefið hafi verið út leyfi fyrir notkun hins nýja bóluefnis. Má þar t.d. nefna Beto O'Rourke, fyrrverandi forsetaframbjóðanda, sem sagði þá sem stóðu að þróun lyfsins mega vera stolta af afreki sínu.
Hotez greindi frá því á Twitter að barnaspítalinn hygðist ekki hagnast á hinu nýja bóluefni heldur væri það „gjöf til heimsins“.
Þá hefðu tækin sem notuð eru við framleiðslu bóluefnisins þegar verið flutt til lyfjaframleiðanda á Indlandi, Indónesíu, Bangladess og Bótsvana.