Kröftugur jarðskjálfti varð undan ströndum Austur-Tímor og Maluku-héraðs á Indónesíu í kvöld. Skjálftinn var af stærð 7,3 en svo stórir skjálftar eru ekki óalgengir á Indónesíu.
Ekki hafa borist fregnir af manntjóni eða skemmdum á mannvirkjum af völdum skjálftans. Þá hefur ekki borist flóðbylgjuviðvörun.
Skjálftinn átti sér stað klukkan hálfsjö að íslenskum tíma og voru upptök hans 120 km norðaustur af bænum Lospalos.