Vara við kæruleysi vegna Ómíkron

Illa gekk að manna áætlunarflug í Bandaríkjunum.
Illa gekk að manna áætlunarflug í Bandaríkjunum. AFP

Catherine Smallwood, yfirmaður Covid-deildar Evrópuhluta Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar WHO, varaði við því í gær að fólk sýndi kæruleysi, þrátt fyrir vonir um að Ómíkron-afbrigðinu fylgdi vægari sjúkdómur.

Sagði Smallwood að jafnvel þó að það kæmi í ljós að Ómíkron-afbrigðinu fylgdi ögn „mildari sjúkdómur“ gæti mikil fjölgun tilfella engu að síður leitt til þess að fleiri, sérstaklega óbólusettir, þyrftu að leita á sjúkrahús, sem aftur myndi leiða af sér stórfelldar truflanir á starfsemi heilbrigðiskerfa og annarra grunnstofnana.

Viðvörun WHO kom sama dag og stjórnvöld í Kína ákváðu að herða á útgöngubanni sínu í norðurhluta landsins vegna 209 nýrra tilfella af kórónuveirunni. Er það mesti fjöldi nýrra tilfella í Kína frá því í mars árið 2020.

Kínverjar settu í síðustu viku útgöngubann á íbúa í borginni Xi'an eftir að nokkur tilfelli komu þar upp en kínversk stjórnvöld vilja halda kórónuveirufaraldrinum í algjöru lágmarki í aðdraganda Vetrarólympíuleikanna í febrúar. Útgöngubannið virðist ekki hafa komið í veg fyrir frekari útbreiðslu smita og var hluti af borginni Yan'an, sem er í um 300 km fjarlægð frá Xi'an, sett undir útgöngubannið í gær.

Flest önnur ríki heims hafa þurft að glíma við mikinn uppgang í faraldrinum vegna Ómíkron-afbrigðisins. Fjöldi nýrra smita hefur leitt til þess að mikið af fólki þarf nú að sæta sóttkví eða einangrun, og mátti rekja tafir á flugumferð um jólahelgina til þess að illa gekk að manna áhafnir farþegaflugvéla.

Sóttvarnastofnun Bandaríkjanna, CDC, ákvað í fyrrinótt að stytta þann tíma sem einkennalausir þurfa að vera í einangrun um helming, í þeirri von að hægt verði að mæta skorti á vinnuafli þannig.

Sérfræðingar í smitsjúkdómum gagnrýndu að ekki væri kallað eftir neikvæðu prófi áður en einangrun væri stytt, en gerð er krafa um að viðkomandi gangi með grímu í fimm daga eftir að einangrun þeirra lýkur.

Metfjöldi smita í Frakklandi leiddi stjórnvöld þar í gær til að skikka vinnuveitendur til að láta starfsfólk sitt vinna heiman frá sér í þrjá daga af hverri viku, ef mögulegt væri.

Jean Castex, forsætisráðherra Frakklands, sagði í gær að þrátt fyrir hinar hertu aðgerðir myndu Frakkar brátt fara að fordæmi Bandaríkjanna og stytta þann tíma sem fólk þarf að vera í einangrun eða sóttkví ef það er einkennalaust.

Þá ákváðu Þjóðverjar að herða samkomutakmörk sín frá og með gærdeginum svo að nú mega tíu bólusettir einstaklingar koma saman, en einungis tveir óbólusettir. Þá verður næturklúbbum lokað og íþróttaviðburðir skulu fara fram fyrir luktum dyrum.

Ómíkron ýti Delta út?

Enn sem komið er benda rannsóknir til að minni líkur séu á að einstaklingar sem smitist af Ómíkron þurfi að fara á sjúkrahús en af Delta-afbrigðinu, sér í lagi ef viðkomandi hefur verið bólusettur fyrir kórónuveirunni.

Þá benda frumniðurstöður rannsóknar í Suður-Afríku, þar sem afbrigðið kom fyrst í ljós, til að þeir sem smitist af Ómíkron séu síður líklegir til að smitast síðar af Delta-afbrigðinu, þar sem ónæmið sem fylgi Ómíkron verji vel gegn Delta.

Höfundar rannsóknarinnar vöruðu við að hún hefði ekki náð til margra, en sögðu að niðurstöðurnar gætu sýnt hvers vegna afbrigðið væri að verða ráðandi í heiminum á kostnað Delta-afbrigðisins. Alex Sigal, prófessor við heilbrigðisrannsóknastofnun Afríku í Suður-Afríku, sagði á twittersíðu sinni, að ef Ómíkron-afbrigðinu fylgdu minni einkenni gæti þetta aðstoðað við að „ýta Delta-afbrigðinu út“.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert