Búast við ósköpum vegna öfga í hitastigi um jólin

Svangur húnn á Kodiakeyju í Alaska bíður eftir fiski.
Svangur húnn á Kodiakeyju í Alaska bíður eftir fiski.

Í Alaska er nú varað við veðurfyrirbæri, sem veðurfróðir menn þar nefna „Icemageddon“, eða helköld ragnarök, en hitatölur hafa ýmist verið í ökkla eða eyra um jólin í þessu kaldasta ríki Bandaríkjanna.

Þannig mældist mesti hiti í desembermánuði annan í jólum, 19,4 gráður, á Kodiak-eyju, sem nægði til að bæta fyrra met um tæpar sjö gráður. Það var svo í bænum Ketchikan, í suðausturhluta ríkisins, á jóladag sem frost mældist 18 gráður og fer í sögubækurnar þar sem einn kaldasti jóladagur síðustu 100 árin.

Þessar miklu veðuröfgar eru taldar geta kallað fram fyrirbærið, sem nefnt er hér að framan, þegar regn og snjókoma hafa skipst á og þar með myndað íshulu á akvegum, sem breska ríkisútvarpið BBC kveður nánast jafnast á við steypu að hörku.

Kveikjuna að þessu ástandi öllu kveða fræðingar vera hlýtt loft, sem streymi frá Havaí og geri hið hefðbundna þurra og kalda desemberloft Alaska mun rakara en vant er, sem svo orsaki örar hitabreytingar og gangi þá regn og snjókoma yfir með mjög skömmu millibili og hreinum háska fyrir ökumenn, enda hefur fjölda þjóðvega verið lokað á köflum auk þess sem borið hefur á rafmagnstruflunum og lokunum vinnustaða. atlisteinn@mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert