Bylgja Ómíkron á niðurleið í Suður-Afríku

Flest smit sem greinast nú eru vegna Ómíkron-afbrigðisins.
Flest smit sem greinast nú eru vegna Ómíkron-afbrigðisins. AFP

Bylgja Ómíkron-tilfella í Suður-Afríku virðist vera á niðurleið að sögn vísindamanns í ríkinu. Nú greinast um 12 þúsund smit á dag þar en um miðjan mánuðinn voru þau um 30 þúsund. 

Á vef The Washington Post er greint frá því að Salim Abdool Karim smitsjúkdómafræðingur hafi sagt í viðtali að hann spá því að önnur ríki muni fylgja í fótspor þróunarinnar í Suður-Afríku.

Nánast öll af völdum Ómíkron

„Ef fyrri afbrigði ollu bylgjum í líkindum við fjallið Kilimanjaro þá er bylgja Ómíkron meira eins og norðurhlið Everest,“ sagði Karim.

„Núna erum við að fara niður, hratt niður suðurhliðina og þannig höldum við að afbrigði líkt og Ómíkron virki,“ sagði hann og bætti við að framtíðarafbrigði gætu hagað sér eins. 

Karim sagði að nánast öll kórónuveirusmit í Suður-Afríku væru nú af völdum Ómíkron-afbrigðisins. „Þegar við uppgötvuðum afbrigðið hafði það þegar náð fótfestu,“ sagði hann og nefndi að Bandaríkin væru um tveimur til þremur vikum á eftir Suður-Afríku, en Evrópa um mánuði á eftir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert