Örvunarskammtur bóluefnis Janssen gefur góða raun

Örvunarskammtar með bóluefni Janssen hafa þegar verið heimilaðir í Bandaríkjunum …
Örvunarskammtar með bóluefni Janssen hafa þegar verið heimilaðir í Bandaríkjunum þó mælt sé með því að önnur bóluefni séu notuð. AFP

Örvunarskammtur með bóluefni lyfjaframleiðandans Janssen hefur reynst öflugur í að vernda fólk frá miklum veikindum af völdum Ómíkron-afbrigðisins. Minnkar hann jafnframt líkur á spítalainnlögnum verulega. Þetta kemur fram í niðurstöðum suðurafrískrar rannsóknar.

The New York Times greinir frá.

Rannsóknin, sem hátt í 70 þúsund heilbrigðisstarfsmenn tóku þátt í, bendir til þess að tveir skammtar af bóluefninu minnki líkur á spítalainnlögnum um allt að 85%. Til samanburðar hefur önnur rannsókn sem framkvæmd var í Suður-Afríku vísað til þess að tveir skammtar af bóluefni Pfizer-BioNTech minnki líkurnar einungis um 70%.

Mæla með öðrum bóluefnum

Örvunarskammtur með Janssen bóluefninu hefur nú þegar verið heimilaður af bandarísku Matvæla- og lyfjastofnuninni (FDA). Sóttvarnastofnun Bandaríkjanna hefur þó mælt fyrir því að bóluefni annarra lyfjaframleiðenda verði frekar nýtt í örvunarskammta í ljósi blóðtappa, sjaldgæfra en lífshættulegra aukaverkana, sem hafa verið greindir í fólki sem fengið hafa Janssen bóluefnið.

Þrátt fyrir að enn eigi eftir að ritrýna rannsóknargreinina telja höfundarnir að baki hennar niðurstöðurnar mikilvægar fyrir bólusetningarátakið sem á sér nú stað í Afríku, sem Janssen bóluefnið hefur verið uppistaðan af. Ný bylgja sem drifin er áfram af Ómíkron-afbrigðinu er nú yfirvofandi í heimsálfunni og gæti annar skammtur af Janssen bóluefninu minnkað álagið á heilbrigðiskerfin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert