Réttarmeinalæknir hefur úrskurðað að maðurinn sem lést í misheppnaðri sprengjuárás í ensku borginni Liverpool í nóvember dó vegna sprengju sem var sérstaklega útbúin til þess að drepa fólk.
Hinn 32 ára gamli Emad Al Swealmeen lést er sprengja sprakk í leigubílnum sem hann var í fyrir utan sjúkrahús í Liverpool.
Swealmeen fæddist í Írak og segir réttarmeinalæknir Andre Rebello að sprengjan hafi verið útbúin með „ásetningi til að myrða fólk“.
Bílstjóra leigubílsins tókst að flýja bifreiðina áður en hún sprakk og sagði lögregla að um hryðjuverk væri að ræða.
Swealmeen undirbjó árásina í sjö mánuði, meðal annars pakkaði hann sprengjunni inn í tvö þúsund stálkúlur og leigði sérstaka íbúð til að útbúa sprengjuna.
Réttarmeinalæknirinn Rebello komst því að þeirri niðurstöðu að „skýrt væri útfrá sönnunargögnum að sprengjan hafi verið útbúin með þeim ásetningi að myrða fólk en sem betur fer var einungis eitt fórnarlamb“.
Swealmeen hafði áður verið dæmdur fyrir lögbrot og hafði ólöglega sótt um hæli í Bretlandi sem sýrlenskur flóttamaður eftir að hann kom til landsins á jórdönsku vegabréfi.
Hælisumsókn hans var hafnað og sagði hryðjuverkadeildar lögreglunnar að hann hafi snúist til kristinnar trúar til þess að auka líkur sínar á að fá hæli í Bretlandi.