Yfirvöld í Peking hafa svarað gagnrýni sem þau hafa fengið yfir sig í kjölfar handtöku sjö blaðamanna frá Hong Kong.
Bandaríkin, Kanada og Evrópusambandið hafa fordæmt yfirvöld eftir að ráðist var inn á skrifstofu fjölmiðils. Voru ritstjóri og fyrrverandi ritstjóri meðal annars handteknir.
„Utanaðkomandi öfl hafa, í nafni fjölmiðlafrelsis, verið að setja fram óábyrg ummæli um lögregluyfirvöld í Hong Kong,“ sagði talsmaður utanríkisráðuneytis Kína, og bætti við að „þetta veldur misskilningi á réttu og röngu, og afvegaleiðir almenningsálitið“.
Yfirvöld í Kína hafa hert stjórn sína yfir Hong Kong í kjölfar umfangsmikilla lýðræðissinnaðra mótmæla. Samhliða þessu hafa fjölmiðlar einnig verið undir strangara eftirliti.
Í gær réðst lögreglan inn á skrifstofu lýðræðissinnaða fréttamiðilsins Stand News og gerði síma, tölvur, gögn og þúsundir dollara upptæk. Patrick Lam, starfandi ritstjóri miðilsins, var í fylgd lögreglunnar í handjárnum þegar leitin fór fram á höfuðstöðvunum.
Í yfirlýsingu þjóðaröryggisdeildar sagði að tveir karlmenn og netmiðill hefðu verið ákærð fyrir samsæri um að birta uppreisnargjarnt efni.
Mennirnir sem um ræðir eru Lam og fyrrverandi ritstjóri fréttamiðilsins, Chung Pui-kuen. Netmiðillinn sem átt er við er móðurfyrirtæki Stand News, Best Pencil Limited.
Auk Lams og Chungs voru fimm handteknir í gær.
Yfirvöld í í Hong Kong hafa lýst árásinni sem réttlætisaðgerð og sakað Stand News um að hvetja til aðskilnaðar.